Fótbolti.net ræddi við Stefán Teit Þórðarson eftir leik Íslands gegn Tyrklandi í Þjóðadeildinni ytra í kvöld.
Það var gríðarlega mikil stemning að venju hjá tyrknesku stuðningsmönnunum.
Lestu um leikinn: Tyrkland 3 - 1 Ísland
„Ég er að njóta þess að spila fótbolta núna og að spila í svona aðstæðum er frábært og lyftir manni upp á hærra plan. Strákarnir sem höfðu spilað hérna áður voru búnir að segja okkur frá þessu," sagði Stefán Teitur.
„Um leið og við fáum boltann er byrjaðað baula og þegar við skorum er kastað kveikjara í áttina að okkur. Þetta er menningin og mér finnst það snilld, algjör ástríða fyrir fótboltanum, eitthvað sem margir geta lært af."
Ísland byrjaði ansi illa í leiknum en vann sig inn í hann og jafnaði metin fyrir lok fyrri hálfleiks.
„Eftir það fannst mér við koma okkur í fínar stöður og gott mark uppúr föstu leikatriði aftur sem við viljum vera bestir í en við náðum ekki að nýta þessar stöður sem við komumst í eftir að hafa spilað út úr fyrstu pressu. Það er eitthvað sem við verðum að laga til að ná í stig gegn liði eins og Tyrklandi."