banner
   fim 10. október 2019 19:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Liverpool besta liðið á Englandi og í Evrópu"
Mynd: Getty Images
Rodri, dýrasti leikmaður í sögu Manchester City, segir að Liverpool sé sterkasta lið Evrópu.

Liverpool hafnaði í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð, einu stigi á eftir Englandsmeisturum síðustu tveggja tímabila - Manchester City. Liverpool vann hins vegar Meistaradeildina eftir sigur á Tottenham í úrslitaleik.

Liverpool er sem stendur með átta stiga forskot á Man City í ensku úrvalsdeildinni. Liverpool hefur unnið fyrstu átta leiki sína í deildinni.

Spænski miðjumaðurinn Rodri var spurður að því í viðtali við ESPN hvort stuðningsmenn Man City litu frekar á Manchester United eða Liverpool sem erkifjendur City. „Ég veit það ekki. Ég veit ekki hvernig fólkinu í borginni líður."

„En liðið sem við erum að berjast við núna er Liverpool og þannig hefur það verið síðustu tvö tímabil. Þeir eru Evrópumeistarar og allir vilja vinna þá, ekki bara við."

„Þeir eru með frábært lið, þeir hafa bætt sig mikið, þeir eru mjög gott lið. Þeir eru besta liðið á Englandi og í Evrópu," sagði hinn 23 ára gamli Rodri, sem hefur komið við sögu í öllum deildarleikjum City það sem af er þessu tímabili, þar af hefur hann byrjað alla nema einn.
Athugasemdir
banner
banner