Nóg af Amorim tengdu slúðri - Arsenal horfir til Bayern - Chelsea horfir til Lecce - Gerrard ætlar að berjast
banner
   fim 10. október 2024 15:27
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Hann er frábær þjálfari og stórkostleg manneskja"
Icelandair
Craig Bellamy, landsliðsþjálfari Wales, var aðstoðarmaður Vincent Kompany hjá Burnley.
Craig Bellamy, landsliðsþjálfari Wales, var aðstoðarmaður Vincent Kompany hjá Burnley.
Mynd: Getty Images
Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands.
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég þekki Bellamy mjög vel," sagði Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsfyrirliði Íslands, á fréttamannafundi í dag.

Annað kvöld spilar Ísland við Wales í Þjóðadeildinni á Laugardalsvelli. Craig Bellamy er á leið inn í sinn annan landsliðsglugga sem landsliðsþjálfari Wales.

Bellamy lék 78 landsleiki fyrir Wales á sínum tíma og var ráðinn landsliðsþjálfari í sumar. Bellamy starfaði síðast sem aðstoðarmaður Vincent Kompany hjá Burnley. Sem leikmaður lék hann meðal annars fyrir Liverpool, Newcastle og Manchester City.

Jóhann Berg þekkir Bellamy vel eftir að hafa unnið með honum hjá Burnley í tvö ár.

„Hann er frábær þjálfari og stórkostleg manneskja. Við áttum góðar stundir saman."

„Það er erfitt í landsleikjaboltanum því þú færð ekki mikinn tíma með liðinu til að koma leikstíl þínum inn. Ég veit alveg hvernig hann vill spila. Við höfum skoðað klippur af því sem hann vill gera. Á morgun snýst þetta um okkur, hvernig við getum lokað á þá. Hann vill spila góðan fótbolta og það sást hjá Burnley, sérstaklega á fyrra tímabilinu."

„Hann er bara búinn að stýra Wales í tveimur leikjum. Fótboltinn eins og hann vill hafa hann, það er kannski ekki alveg til staðar strax. Við þurfum að vera undirbúnir fyrir það sem gerist á morgun. Völlurinn gæti líka verið til vandræða. Þeir spiluðu í Svartfjallalandi um daginn og þar gátu þeir ekki spilað sinn bolta út af vellinum. Gegn Tyrklandi sáum við meira af hans leikstíl. Þetta verður áhugavert á morgun. Við erum að spila á heimavelli og við ætlum að spila okkar leikstíl."

Bellamy fer vel af stað í starfi og leikmenn velska liðsins hafa verið að hlaða hann lofi í viðtölum. Þá hafa stuðningsmenn sungið nafn hans.

„Bellamy er mjög ástríðufullur. Hann var náinn okkur leikmönnunum. Hann er mögnuð manneskja og hjálpaði okkur mikið. Hann reyndi alltaf að hjálpa okkur. Hann var líka sterkur á æfingasvæðinu og sérstaklega góður með framherjana þar sem hann var frábær sóknarmaður. Ég get sagt margt jákvætt um hann. Það var frábært að vinna með honum í tvö ár," sagði Jói Berg.

Vonast alltaf eftir sex stigum
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, var einnig spurður út í Bellamy og velska liðið.

„Þeir hafa bara spilað tvo leiki undir hans stjórn. Það er nýr kafli að hefjast þarna. Ég þekki Wales eftir að hafa stýrt Danmörku. Við spiluðum oft við þá. Ég þekki einstaklingana þeirra en núna koma þeir saman. Eins og Jóhann segir, þá færðu ekki mikinn tíma í landsliðsfótbolta. Þú færð bara nokkra daga á vellinum. Þú þarft að byggja upp leikstíl. Við hlökkum til leiksins," sagði Hareide og bætti við:

„Þú getur alltaf vonast eftir sex stigum en þetta veltur á því hvernig við stöndum okkur. Ef við spilum vel, þá er góður möguleiki á stigum. Við erum vel undirbúnir fyrir leikina. Það er stutt á milli leikja, bara tveir dagar. Við erum að spila við sterkustu liðin í riðlinum. Við verðum að sjá hvernig staðan verður eftir leikinn gegn Wales."
Athugasemdir
banner
banner