
Fjölmennt var á Stakkavíkurvelli í Grindavík í dag þar sem heimamenn í Grindavík tóku á móti Fjölni í annari umferð Lengjudeildar karla. Leikurinn markaði nokkur tímamót fyrir Grindvíkinga en leikurinn var sá fyrsti sem fram fer í bænum síðan að bærinn var rýmdur þann 10.nóvember 2023. Leikurinn spilaðist ekki alveg eftir draumahandriti heimamanna en lokatölur urðu 3-3 jafntefli eftir hörkuleik. Haraldur Hróðmarsson þjálfari Grindvíkinga ræddi við Fótbolta.net að leik loknum.
Lestu um leikinn: Grindavík 3 - 3 Fjölnir
„Ég er svolítið úti um allt. Ég er ánægður með fullt af hlutum en við náttúrlega byrjum þetta hræðilega. Fáum á okkur mark eftir 25 sekúndur. Mér fannst svarið við því vera ágætt, Ármann gerir frábærlega og býr til sjálfsmark að mér sýndist. Svo fáum við á okkur 2-1 markið strax og þá hugsar maður með sér hvað er í gangi.“
Sagði Haraldur um skrautlega byrjun leiksins en 3 mörk voru komin í leikinn á fyrstu 13 mínútum hans. Haraldur hélt áfram og ræddi um síðari hálfleikinn og það að Grindavík missti frá sér forystu í leiknum er langt var liðið á uppbótartíma..
„Mér fannst við ná tökum á leiknum þegar líða fer á fyrri hálfleiki og sá síðari er okkar eign að mestu leyti en við erum opnir til baka. En það sem stendur upp hjá mér núna er að hafa ekki hangið á 3-2 forskotinu 11 á móti 10.“
Ármann Ingi Finnbogason fór mikin framan af fyrri hálfleik og olli Fjölnismönnum miklum vandræðum með snerpu sinni. Hann varð fyrir því óláni að meiðast eftir tæklingu frá Reyni Haraldssyni leikmanni Fjölnis og þurfti að yfirgefa völlinn í upphafi síðari hálfleiks.
„Hann er bara sparkaður út úr leiknum. Ég ræddi nú aðeins við Jóhann Inga og ég bara skil ekki hvernig menn fá ekki rautt spjald fyrir svona tæklingar. Þetta var bara tilraun til þess að sparka honum út úr leiknum og honum tókst það. Það var stutt í hálfleik og við hugsuðum með okkur að við gætum tjaslað honum saman í hálfleiknum en það hélt ekki.“
Það voru miklar tilfinningar innan sem utan vallar á leiknum og augljóst að þessi stundi skipti marga mjög miklu máli. Hvernig upplifði Haraldur það?
„Þetta var bara yndislegur dagur og alveg frábær. Það er alveg rétt að byrjunin á leiknum bar þess keim að menn væru í smá tilfinningalegu róti. Þetta var flókinn dagur, skemmtilegur og frábær, gaman að fá allt fólkið og koma þessu heimavallar tímabili á stað en það hafði full mikil áhrif á liðið mitt. Við gátum ekki byrjað leikinn alveg strax því við vorum fastir í gleðinni.“
Sagði Haraldur en allt viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir