Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var að vonum svekktur eftir 1-0 tap sinna manna gegn FH í Laugardalnum í kvöld og vildi meina að sínir menn hefðu átt að fá meira úr leiknum.
„Það er sárt að tapa, við vorum gríðarlega sterkir í dag, sérstaklega fyrstu 20 mínúturnar og allan síðari hálfleikinn vorum við mun betra liðið. FH átti mjög góðan kafla undir lok fyrri hálfleiks og skoruðu markið sitt, og kannski eðlilegt að þeir voru að verja sitt mark í seinni hálfleik til að halda þessu eina marki sem þeir skoruðu. En við áttum að skora í þessum leik,“ sagði Rúnar eftir leik.
Rúnar var mjög ósáttur með að mark KR-inga hafi ekki staðið undir lok leiksins, en aðstoðardómarinn flaggaði brot á Kjartan Henry Finnbogason.
„Alltaf skrítið þegar aðstoðardómararnir eru tilbúnir að flagga mark af þegar það gerist á marklínu í miðju markinu og dómarinn oft nærri, en hann var ekki tilbúinn að dæma vítaspyrnu þegar tveir okkar manna voru teknir niður í markteignum. Það er alveg jafn langt færi fyrir aðstoðardómarann, en það er spurning hversu langt þeir eiga að vera að teygja sig inn á völlinn og dæma leikinn. Ég var ósáttur við þetta og vona að hann hafi gert rétt,“ sagði Rúnar.
„Öll smáatriðin duttu með þeim, en það er ekki það sem skiptir máli í þessu. Þetta var ekki þannig dómgæsla að hún eyðilagði þetta fyrir okkur, en ég var ósáttur með að hafsentinn þeirra skyldi ekki fara fyrr í bókina. Hann hoppaði upp á bakið á leikmönnum allan leikinn, hann hoppar upp á Kjartan í miðjum teig og við öskrum á vítaspyrnu en fáum ekki. Það er alltaf auðveldara að sleppa því að dæma inni í vítateig heldur en úti á velli.“
Viðtalið má sjá hér að ofan.
Athugasemdir





















