Barca vill Dani Olmo - Crystal Palace að bjóða í Smith Rowe - Sergi Roberto vill enska boltann - Newcastle spyrst fyrir um Madueke
   sun 12. maí 2024 10:41
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Andri Lucas í viðræðum við Gent
Andri hefur leikið 22 A-landsleiki og skorað 6 mörk.
Andri hefur leikið 22 A-landsleiki og skorað 6 mörk.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano greindi frá því í morgun að belgíska félagið Gent hefði mikinn áhuga á því að fá Andra Lucas Guðjohnsen í sínar raðir frá Lyngby.

Andri hefur átt frábært tímabil með Lyngby en hann var á láni hjá félaginu þar til fyrir skömmu þegar danska félagið kláraði kaupin á honum frá sænska félaginu Norrköping. Andri hefur raðað inn mörkum og er markahæstur í dönsku Superliga með 13 mörk skoruð í vetur.

Vísir vekur athygli á þessu og vísar í belgíska miðilinn Het Laatste Nieuw. Þar segir að Gent þurfi nauðsynlega á sóknarmanni að hadla þar sem Hugo Cuypers fór til Chicago Fire og Gift Orban var keyptur til Lyon.

Gent er belgíska félagið sem mætti Breiðabliki í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar fyrir áramót.

Guðjohnsen fjölskyldan þekkir vel til í Belgíu en faðir Andra og afi hans léku þar í landi. Faðir hans Eiður Smári lék með Cercle og Club Brugge og Arnór afi hans lék með Lokeren og Anderlecht.

Belgíski miðilinn segir að Eiður sé mættur með Andra Lucasi til Gent.

Andri Lucas er 22 ára framherji sem er uppalinn á Spáni þar sem hann lék m.a. með Barcelona og Real Madrid. Hann var leikmaður Real Madrid á árunum 2018-2022 en samdi í kjölfarið við Norrköping. Hann fékk ekki margar mínútur hjá sænska félaginu og í kjölfarið fór hann til Lyngby sem nýtti sér fyrr á þessu ári forkaupsrétt í lánssamningnum. Hann er því í dag samningsbundinn Lyngby.

Gent er í Sambandsdeildarumspilinu í belgísku deildinni sem er þrískipt eftir að hefðbundinni deildarkeppni lýkur. Sambandsdeildarumspilið er næstefsta umspilið og þar mætast sex lið og berjast þau um eitt sæti. Efsta liðið í þessum sex liða riðli fer svo í síðustu umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni. Gent á lokaleik sinn á tímabilinu í dag gegn Jóni Degi Þorsteinssyni og félögum í Leuven en Gent er þegar búið að tryggja sér efsta sætið í umspilinu og þar með Evrópusætið.
Athugasemdir
banner