Kjörtímabili Vöndu Sigurgeirsdóttur formanns KSÍ lýkur á 78. ársþingi KSÍ sem fram fer í febrúar á næsta ári. Sögusagnir hafa verið í gangi um að Vanda hyggist ekki bjóða sig fram áfram en þetta var rætt í Innkastinu hér á Fótbolta.net.
„433.is sendi fyrirspurn á hana og hún sagði að það væri ekki tímabært að svara þessu. Þetta gefur vísbendingar um að hún liggi undir feldi og mögulegt sé að hún bjóði sig ekki áfram fram sem formaður," sagði Elvar Geir Magnússon í Innkastinu.
Vanda tók við formennsku hjá KSÍ 2021 og varð fyrst kvenna til þess að taka við embætti formanns í aðildarsambandi UEFA.
„Mér finnst ekki tímabært að „kommenta“ á þetta núna, svona í byrjun september og þing í lok febrúar," sagði Vanda í svari við fyrirspurn 433.is um hvort hún myndi gefa kost á sér áfram.
Í fabúleringum í Innkastinu er Willum Þór Þórsson orðaður við formannsframboð og einnig rætt um hvort Guðni Bergsson sé að kanna jarðveginn og gæti boðið sig fram að nýju. Guðni hefur skyndilega verið meira í umræðunni en áður.
Athugasemdir