
"Við vorum hrikalega vel stemmdir. Við undirbjuggum leikinn vel og þetta var frábær frammistaða á þessum tímapunkti," sagði Bjarni Jóhannsson, þjálfari Selfoss, glaður í bragði eftir 3-0 sigur gegn HK í kvöld.
Lestu um leikinn: Selfoss 3 - 0 HK
"Við nýttum færin betur í kvöld. Svo fannst mér líka meiri stíll yfir liðinu en áður. Sagan sýnir að þegar við höfum nýtt færin okkar, þá vinnum við leiki. Það er ósköp einfalt."
Daði Kárason kom beint í byrjunarliðið eftir að hafa skipt yfir í Selfoss í gær. Hann var að spila sinn fyrsta leik í Lengjudeildinni en það var ekki að sjá í kvöld. "Honum var bara hent í djúpu laugina og hann svo sannarlega stóð fyrir sínu í dag. Hann er hörku varnarmaður og það er frábært að fá hann."
Jón Daði Böðvarsson kom inn á sem varamaður í dag og var ekki lengi að láta til sín taka. "Stoðsending og mark. Jón Daði gefur okkur auðvitað mikið og svo er Frosti að koma til baka úr meiðslum. Það var gott að fá þá saman inn í seinni hálfleik"
Framundan er mikil barátta það sem eftir lifir móts. "Hver einasti leikur er bara úrslitaleikur og við gerum okkur grein fyrir því. Við verðum bara að standa okkur í þeim leikjum sem eftir eru."