Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 14. maí 2021 08:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spurning fyrir næsta tímabil: Hvar fær Andri að spila?
Andri Fannar Baldursson.
Andri Fannar Baldursson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri Fannar Baldursson hefur líklega ekki spilað eins mikið og hann hefði viljað á þessu tímabili.

Andri, sem er 19 ára gamall miðjumaður, hefur komið við sögu í sjö deildarleikjum með Bologna á þessu tímabili þegar tvær umferðir eru eftir af ítölsku úrvalsdeildinni. Hann kom einnig við sögu í sjö leikjum á síðasta tímabili og þó hann sé búinn að spila fleiri mínútur á þessu tímabili, þá hefði maður við búast við stærra stökki.

Þetta setur spurningamerki fyrir næsta tímabil, hvort hann fái stærra hlutverk eða ekki. Á þessum aldri þarf hann að fá að spila, ekki síst fyrir íslenska landsliðið því þarna er á ferðinni gríðarlega spennandi leikmaður.

„Ég bjóst við meiru. Hann spilaði töluvert meira í fyrra og fékk fimm ára samning. Hann er enn ungur. Ég er ekki alveg nægilega sáttur með það hvað hann hefur spilað lítið. Það sem fer gegn honum er að þeir eru með Mathias Svanberg á miðjunni og hann er búinn að vera frábær. Hann hefur verið orðaður við AC Milan," sagði Björn Már Ólafsson í hlaðvarpi um ítalska boltann á dögunum.

„Jerdy Schouten er djúpur miðjumaður sem hefur verið frábær. Hollenski landsliðsþjálfarinn er að fylgjast með honum. Fyrir aftan þá finnst mér að Andri hefði átt að fá fleiri tækifæri."

„Svanberg verður örugglega seldur í sumar og mögulega Schouten líka. Ef að Bologna sækir ekki fleiri miðjumenn þá er augljóst að þeir ætla Andra Fannari hlutverk fyrir næsta tímabil. Ef þeir selja þessa og sækja fleiri miðjumenn þá er spurning hvort hann leiti annað til að fá spiltíma. Lán í lið í neðri hluta deildarinnar væri ekki vitlaust. Lið í botnsætunum og þau sem eru að koma upp, þau eru að spila fótbolta, þau eru ekki í varnarpakki."

„Þetta eru líka lið sem eru til í að nota unga leikmenn. Það eru örugglega fullt af liðum í neðri helmingnum sem væri til í að taka sénsinn á ungum Íslendingi sem er frábær í fótbolta. Þegar hann hefur komið inn á, þá hefur hann algjörlega haldið 'level-inu'. Við vonumst til að sjá hann í stærra hlutverki á Serie A á næsta tímabili, og vonandi hjá Bologna."

Það eru tvær umferðir eftir í ítölsku úrvalsdeildinni og Bologna í miðjumoði. Það er vonandi að Andri fái tækifæri í tveimur síðustu leikjunum.
Athugasemdir
banner
banner
banner