Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   þri 14. maí 2024 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Staðfestir að hann sé á förum frá Milan
Mynd: EPA
Franski sóknarmaðurinn Olivier Giroud hefur staðfest að þetta verði hans síðasta tímabil hjá ítalska félaginu Milan en hann er á leið til Bandaríkjanna í sumar.

Giroud, sem er 37 ára gamall, hefur átt farsælan feril með liðum á borð við Arsenal, Chelsea, Montpellier og auðvitað Milan.

Þessi stóri og stæðilegi framherji hefur unnið flest allt sem hægt er að vinna sem fótboltamaður í hæsta klassa. Eina sem hann hefur ekki afrekað er að vinna ensku úrvalsdeildina og Evrópumót landsliða.

Það gæti að vísu breyst í sumar þegar Frakkland fer á EM í Þýskalandi, en það verður væntanlega hans síðasta stórmót. Hann er í dag markahæsti landsliðsmaður Frakklands frá upphafi.

Giroud hefur gert frábæra hluti með Milan frá því hann kom til félagsins fyrir þremur árum. Hann hefur skorað 48 mörk og gefið 20 stoðsendingar, en nú ætlar hann að kveðja Evrópuboltann.

Fabrizio Romano hefur fullyrt síðustu vikur að hann sé að ganga í raðir Los Angeles FC í MLS-deildinni í Bandaríkjunum og hefur framherjinn nú staðfest fregnirnar.

„Ég er stoltur af því sem ég gerði hér hjá Milan. Ég mun spila síðustu leiki mína hér og halda síðan í MLS-deildina,“ sagði Giroud.


Athugasemdir
banner
banner
banner