mið 15. janúar 2020 10:00
Ívan Guðjón Baldursson
Marquinhos framlengir við PSG
Mynd: Getty Images
Brasilíski varnarmaðurinn Marquinhos er mikils metinn og hefur verið eftirsóttur af stærstu félögum Evrópu. Hann er 25 ára gamall og gríðarlega fjölhæfur, enda reglulega notaður sem miðjumaður í liði Frakklandsmeistara Paris Saint-Germain.

Hann er búinn að skrifa undir nýjan samning við PSG sem gildir í þrjú og hálft ár, eða til sumarsins 2024.

Marquinhos gekk í raðir PSG frá AS Roma sumarið 2013, þegar hann var aðeins 19 ára gamall. Síðan þá hefur hann spilað 271 leik fyrir PSG og unnið fjórtán titla með félaginu.

Í viðtali í fyrra sagðist varnarmaðurinn vilja spila fyrir PSG út ferilinn.

Marquinhos er mikilvægur hlekkur í brasilíska landsliðinu og á 47 keppnisleiki að baki fyrir þjóð sína.

Það verða miklar breytingar á leikmannahópi PSG eftir þessa leiktíð þar sem Edinson Cavani, Thiago Silva, Thomas Meunier og Laywin Kurzawa verða allir samningslausir.

PSG trónir á toppi frönsku deildarinnar og mætir Borussia Dortmund í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner