Amorim með áhugaverða klásúlu - Man City sýnir Mainoo áhuga - Juve vill Silva - Liverpool gæti gert tilboð í Araujo
   fös 15. febrúar 2019 15:43
Magnús Már Einarsson
Willum Þór til BATE (Staðfest)
Willum Þór Willumsson.
Willum Þór Willumsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
BATE Borisov hefur keypt Willum Þór Willumsson frá Breiðabliki en félagaskiptin voru staðfest nú rétt í þessu. Willum skrifaði undir þriggja og hálfs árs samning við BATE.

Willum fór til Hvíta-Rússlands í vikunni að skoða aðstæður og hann sá BATE vinna Arsenal 1-0 á heimavelli í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í gærkvöldi.

BATE er langstærsta félagið í Hvíta-Rússlandi en það hefur orðið meistari þar í landi þrettán ár í röð. Í Hvíta-Rússlandi er sumardeild en nýtt tímabil þar hefst í kringum mánaðarmótin mars/apríl.

Á undanförnum níu tímabilum hefur BATE farið sjö sinnum í riðlakeppni í Meistaradeildinni og Evrópudeildinni.

Hinn tvítugi Willum var valinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar hjá Fótbolta.net á síðasta tímabili. Willum spilaði einn leik í Pepsi-deildinni 2016 og átta leiki 2017 en í fyrra festi hann sig í sessi í liði Breiðabliks og skoraði sex mörk í nítján leikjum.

Willum spilaði sinn fyrsta U21 landsleik í október í fyrra og í janúar kom fyrsti A-landsleikurinn gegn Eistlandi í Katar. Willum lék aldrei með U17 ára landsliði Íslands og einungis tvo leiki með U19 ára liðinu.

Í vetur hefur ítalska félagið Spezia reynt ítrekað að kaupa Willum en án árangurs. Fleiri erlend félög hafa sýnt Willum áhuga en BATE hefur nú unnið kapphlaupið um hann.
Athugasemdir
banner
banner