Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   fim 15. apríl 2021 15:16
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Gummi Júl: Menn eiga ekki að líta á HK sem skref niður á við
Gummi Júl
Gummi Júl
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
HK er með reynslumikinn kjarna
HK er með reynslumikinn kjarna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á hliðarlínunni 2019
Á hliðarlínunni 2019
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er góður, hrikalega góður og spenntur að þetta mót fari að byrja. Standið er gott, það verður fljótt að koma þegar við förum í hefðbundnar fótboltaæfingar. Fyrsta æfingin er í dag og það verður hrikalega ljúft,“ sagði Gummi Júl þegar Fótbolti.net heyrði í honum í dag.

Framundan eru svo æfingaleikir hjá HK gegn Fjölni á laugardag og Víkingi Reykajvík í kjölfarið.

Guðmundur Þór Júlíusson er miðvörður sem uppalinn er í Fjölni en gekk í raðir HK árið 2015. Hann hefur einnig leikið með Val á ferlinum. Gummi er 27 ára gamall og var frá allt tímabilið 2019 vegna meiðsla.

Fréttaritari ræddi um HK og komandi tímabil við varnarmanninn.

Það eru þrír hörkumiðverðir í HK. Þeir Leifur Andri Leifsson, Martin Rauschenberg og Gummi berjast um miðvarðastöðurnar.

Hvernig horfir sú samkeppni við þér?

„Þetta er hörku þríeyki og eins og staðan er núna held ég að ég og Martin byrjum mótið. Leibbi er búinn að vera eitthvað tæpur að undanförnu og hefur ekki tekið þátt í öllum æfingum. Ég og Martin spiluðum marga góða leiki saman í fyrra."

„Mér fannst ég ekki alveg ná að gera það sem ég vildi gera í fyrra, byrjaði í banni og svo kom annað Covid-stopp, ég náði ekki að koma mér í það leikform sem þurfti. Eins og staðan er núna erum við með sterka menn í öllum stöðum og öfluga menn á beknum líka. Leikmenn eru á svipuðum aldri og menn hafa spilað marga leiki. Liðið sérstaklega hefur spilað marga leiki saman og stefnan verður sett hærra en síðustu tvö ár.“


Að hópnum einmitt, þetta er reynslumikill hópur. Finnuru fyrir því að þið sem lið ættuð að geta stefnt hærra en undanfarin ár?

„Já, klárlega. Markmiðið er alltaf þannig. Í fyrra ætluðum við að gera betur en tímabilið á undan en náðum því ekki. Okkur tókst ekki að ná að tengja saman sigrana sem við náðum, við vorum að ná góðum sigrum. Ef við náum því að tengja saman góða sigra þá er lítið sem stoppar okkur."

„Heimavöllurinn og samheldnin í hópnum vinnur með okkur. Það eru allir að vinna að sama markmiði og stemningin er upp á tíu. Það eru allir gríðarlega góðir vinir og enginn í einhverri fýlu sem á það til að koma upp í hópum. Menn eru að gera sína hluti upp á tíu.“

„Þetta er hrikalega þéttur kjarni og hefur verið saman lengi. Leikmenn sem komu inn í fyrra eins og Ívar, Bjarni Páll, Stebbi og Jonni, núna eru þeir að ná undirbúningstímabili með okkur og að æfa vel. Það munar miklu og sérstaklega fyrir þá að ná upp trú á leikmönnunum í kringum sig."

„Sumir voru að koma úr liðum sem þeir telja vera betri lið og líta kannski á HK sem skref niður á við. En það er ekkert þannig og menn eiga ekki að líta á það þannig. Í fótbolta heilt yfir, ef þú finnur að þú ert að spila með góðum leikmönnum þá veistu að þú getur unnið alla og þegar það er komið þá er eina leiðin upp á við.“


Er það klárt markmið að enda ofar í deildinni?

„Já, það er alveg klárt. Við vitum að getum gert það en að sjálfsögðu þarf margt að spila inn í, meiðsli og menn verða að ná að spila sig saman í að ná í nægilega marga sigra. Auðvitað stefnum á að gera mun betur en í fyrra,“ sagði Gummi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner