Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var brattur eftir að Íslandsmeistararnir drógust gegn FH í 32-liða úrslitum Borgunarbikarsins í dag.
Óhætt er að segja að tvö sterkustu lið Íslands mætist í þessum leik, en KR-ingar hafa oft fengið erfiða andstæðinga snemma í bikarnum.
Óhætt er að segja að tvö sterkustu lið Íslands mætist í þessum leik, en KR-ingar hafa oft fengið erfiða andstæðinga snemma í bikarnum.
,,Við höfum undanfarin þrjú ár endað í mjög erfiðum leikjum í 32-liða eða 16-liða úrslitunum, og það er engin breyting á í ár. Við höfum farið til Vestmannaeyja tvisvar og fengið FH-inga og Blika snemma, við höfum ekkert farið auðveldar leiðir í þessu ef hægt er að tala um auðvelda leið," sagði Rúnar eftir dráttinn í dag.
,,Við höfum farið langt í þessari keppni undanfarin ár og gengið vel, en við erum að fara að spila við FH sem er gríðarlega sterkt lið. Þetta eru 50/50 leikir og það er ekkert öruggt í þessu."
,,Við viljum náttúrulega vinna alla leiki sem við förum í, hvort sem liðið heitir FH eða eitthvað annað. Þeir voru gríðarlega öflugir á móti okkur í síðasta leik og við áttum mjög erfitt með að brjóta þá á bak aftur. Þeir eru vel mannaðir og vel þjálfaðir."
Rúnar vonar að Frostaskjólið verði tilbúið þegar KR og FH mætast í bikarnum, en KR hefur þurft að spila fyrstu tvo heimaleiki sína á gervigrasinu í Laugardal.
,,Við munum náttúrulega reyna að gera allt til þess. Auðvitað er skemmtilegara að spila í Frostaskjóli og við verðum að sjá hvernig völlurinn kemur á næstu árum. Hann er að taka aðeins við sér og við þurfum bara aðeins meiri hita. Það er verið að vinna hörðum höndum í að gera þetta eins vel og hægt er, vonandi verður völlurinn klár. En ég stjórna því ekki," sagði Rúnar.
Kassim "The Dream" Doumbia, nýr varnarmaður FH, vakti mikla athygli þegar hann hélt því fram að framherjinn Gary Martin hefði verið með óheiðarlega tilburði í 1-0 sigri Hafnfirðinganna gegn KR í deildinni á dögunum.
Grétar Sigfinnur Sigurðarson lét Doumba heyra það í viðtali við Fótbolta.net, og Rúnar var heldur ekkert allt of sáttur við ummæli varnarmannsins.
,,Ég nenni ekki að hafa nein komment út af því. Ef þetta er það sem honum finnst, þá er það hans vandamál. Hann var heppinn að vera ennþá inni á vellinum þegar leiknum lauk, að mínu mati. Hann fór aldrei í bókina og hefði átt að fara í hana. Hann verður bara að fara að tala aðeins minna og spila frekar áfram. Hann spilaði vel í leiknum og er góður leikmaður, en það er kannski ekkert sniðugt aðvera að gaspra of mikið í fjölmiðlum," sagði Rúnar að lokum.
Athugasemdir























