Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 15. október 2014 14:00
Elfar Freyr Helgason
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Jafnteflasumarið
Elfar Freyr Helgason
Elfar Freyr Helgason
Elfar Freyr Helgason fer yfir sumarið hjá Blikum.
Elfar Freyr Helgason fer yfir sumarið hjá Blikum.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Sú ákvörðun var tekin síðla árs 2013 að við Blikar skildum fara í flottustu æfingaferð sem nokkurt íslenskt lið hafði farið í fyrr og síðar með tilheyrandi kostnaði fyrir leikmenn liðsins, þetta varð til þess að í hönd fóru frumlegustu fjáraflanir sem að undirritaður hefur orðið vitni að.

Ingiberg Ólafur sem síðar átti eftir að verða liðsmaður Fram gerðist spákaupmaður og fjármagnaði sína ferð alfarið með rafmyntinni Auroracoin, Gísli Páll gerðist mennskur Sushi-platti samhliða námi og Stefán Gíslason opnaði húsgagnaverslunina Willamia (willamia.is) gagngert til þess að standa straum af kostnaði við þessa metnaðarfullu ferð.

Ótvíræður sigurvegari fjáraflanna þessa árs átti hins vegar eftir að reynast þúsundþjalasmiðurinn Guðjón Lýðsson sem deilir fyrsta sætinu með engum öðrum en sjálfum sér. Guðjón lét sér ekki nægja að stökkva úr reit á miðri æfingu og selja bíl sinn hjónum á göngutúr heldur fékk hann þá hugmynd að leita að kattarlæðunni Nuk sem að týndist úr einkaflugvél á Reykjavíkurflugvelli í von um vegleg fundarlaun. Höskuldur Gunnlaugsson vængmaður Guðjóns og Breiðabliks var honum til halds og trausts en hann átti síðar eftir að kalla leitina af í samvinnu við kærustu Guðjóns þegar öllum var ljóst í hvað stefndi. Þrátt fyrir að koma tómhentur heim úr Öskjuhlíðum átti þessi reynsla eftir að nýtast Guðjóni vel en fyrir hönd meistaraflokks fer hann nú fyrir leitinni að Stuðblikum sem hurfu sporlaust fyrir mót.

Síðasta fjáröflunin var svo Herrakvöld Breiðabliks sem að fór vel fram eins og vanalega, óhætt er samt að fullyrða að allar samskipta boðleiðir innan félagsins hafi brugðist í aðdraganda hins árlega happdrættis. Á hverju ári fellur það í hlut leikmanna meistaraflokks að safna vinningum en það steingleymdist, leikmenn liðsins höfðu skamman tíma til þess að redda því en stóðu uppi sem sannir sigurvegarar í lok kvölds og voru vinningarnir ekki síðri en utanlandsferðin sem dregin var út árið 2012. Aðalvinningshafi kvöldsins vann hvorki meira né minna en máltíð fyrir tvo á Serrano og helgarmiða í Bíó Paradís á pólska kvikmyndahátíð. Annar vinningur féll svo í hendur eins af dáðustu sonum Breiðabliks en Ívar Sigurjónsson veitti viðtöku klippingu á rakarastofunni "Eli hair-saloon" sem er hugverk Ellerts Hreinssonar sóknarmanns liðsins.

Ýmsar breytingar áttu sér stað í leikmannamálum en þar ber hæst að nefna að Gísli Páll og Tómas Óli héldu til Bandaríkjanna á miðju tímabili en þau tíðindi reyndust liðsmönnum afar þungbær, það var þó einn maður öðrum fremur sem tók þessum tíðindum illa og var það Kristján sjúkraþjálfari og eigandi Sjúkraþjálfunnar Kópavogs. Hann varð fyrir miklu sálrænu áfalli enda er erfitt fyrir hvern sem er að horfa á eftir svona stórum hluta af viðskiptum sínum hverfa á einu bretti.

Af þjálfaramálum var það að frétta að Óli hætti og tók við liði Nordsjælland sem hefur aldrei farið betur af stað í dönsku deildinni en í ár. Þrátt fyrir að Óli sé farinn þá er áhrifa hans enn að gæta innan raða Breiðabliks og lifir orðskrípið snövl t.a.m. góðu lífi í búningsklefanum. Gummi Ben tók við keflinu og honum til aðstoðar var Willum, í kjölfarið hættum við Blikar að snövla um teiga andstæðinganna en tókum þess í stað skuggahlaup í ventla þeirra og mæltist þessi breyting vel fyrir. Nú er ljóst að Gummi og Willum verða ekki áfram en leikmenn þakka þeim góð störf og bjóða Arnar velkominn.

Um knattspyrnusumarið 2014 bera fæst orð minnsta ábyrgð, jafnteflin urðu alls 12 talsins og var það nýtt Íslandsmet eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Fyrsti sigurinn kom eftir ellefu umferðir, óviðunandi árangur sem er hins vegar kominn í baksýnisspegilinn, við taka ný tækifæri, við Blikar þökkum fyrir okkur.

E.H.

Sjá einnig:
Ísöld - Keflavík
Brekkan - Fjölnir
Vonbrigði - ÍBV
Fall er fararheill - Fram
Skítarákir upp eftir allri dollunni - Þór
Athugasemdir
banner
banner
banner