Liverpool berst við spænsku risana um Wharton - Nkunku orðaður við Liverpool - Rodrygo í enska boltann?
   lau 17. maí 2025 17:32
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Enski bikarinn: Crystal Palace meistari í fyrsta sinn í sögu félagsins
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Crystal Palace 1 - 0 Manchester City
1-0 Eberechi Eze ('16 )
1-0 Omar Marmoush ('36 , Misnotað víti)

Crystal Palace er enskur bikarmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir sigur á Man City á Wembley.

Erling Haaland var nálægt því að koma City yfir snemma leiks en Dean Henderson varði vel frá honum.

Man City byrjaði leikinn betur en það var Crystal Palace sem braut ísinn. Liðið komst í skyndisókn sem Eberechi Eze batt endahnútinn á eftir fyrirgjöf frá Daniel Munoz.

Það var umdeilt atvik þegar Henderson braut á Erling Haaland þegar hann var að sleppa í gegn en VAR ákvað að dæma ekkert, Henderson slapp þar við rautt spjald.

City fékk vítaspyrnu eftir hálftíma leik þegar Tyrick Mitchell braut á Bernardo Silva inn í vítateignum. Omar Marmoush steig á punktinn en Henderson sá við honum.

Henderson var sjóðandi heitur en hann varði frá Jeremy Doku undir lok fyrri hálfleiks og boltinn barst til Kevin de Bruyne sem skaut hátt yfir.

Munoz átti skot sem Stefan Ortega varði, Munoz náði frákastinu sjálfur og skoraði. Markið var hins vegar dæmt af þar sem boltinn fór í Ismaila Sarr sem var rangstæður.

Tíu mínútum var bætt við venjulegan leiktíma. Leikmenn City gerðu hvað þeir gátu en fleiri mörk urðu ekki skoruð og Crystal Palace er enskur bikarmeistari árið 2025.
Athugasemdir
banner
banner