Verðmiðinn á Rashford - Mikið tap hjá Ratcliffe - Newcastle vill Gittens
   fös 16. maí 2025 14:37
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hvernig hefur Arnari liðið eftir erfiðan fyrsta glugga?
Icelandair
Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari.
Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Orri Steinn var frábær í síðasta glugga, hans fyrsta sem fyrirliði.
Orri Steinn var frábær í síðasta glugga, hans fyrsta sem fyrirliði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland fagnar marki gegn Kosóvó.
Ísland fagnar marki gegn Kosóvó.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar ræddi við fréttamenn í dag.
Arnar ræddi við fréttamenn í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er ekki hægt að segja að fyrsti gluggi Arnars Gunnlaugssonar með landsliðið hafi verið mjög góður en strákarnir okkar töpuðu þá tvisvar gegn Kosóvó og féllu niður um deild í Þjóðadeildinni.

Arnar valdi í dag sinn annan landsliðshóp fyrir vináttulandsleiki á Bretlandseyjum í júní.

Hann var á fréttamannafundi í dag spurður út í það hvernig sér hefði liðið eftir síðasta glugga sem var mjög erfiður. Hann er vanur því í félagsliði að hitta liðið strax eftir leik en umhverfið er öðruvísi í landsliðinu þar sem hann hefur fengið að hugsa fullt um síðustu tvo leiki.

„Þetta er góð spurning. Þetta hefur verið áskorun þar sem eftir svona glugga viltu fá hópinn strax og fara yfir það sem þarf að laga, greina leikina með strákunum og fara beint á æfingasvæðið. Þetta er hins vegar umhverfið sem landsliðsþjálfarar búa við. Þú þarft að greina leikina mjög vel og vera nákvæmari varðandi þau smáatriði sem þú vilt kynna fyrir strákunum í næsta glugga. Vinnan byrjaði strax eftir síðustu leiki," sagði Arnar.

„Mér finnst gaman að lesa fjölmiðla og gagnrýnin er réttmæt að vissu leyti. Maður er sölumaður þar sem maður er að selja einhverja hugmynd til strákana sem þeir þurfa að kaupa. Ég er líka að selja ákveðna hugmynd til ykkar. Það er mitt að vega og meta hvað gekk vel og illa í þessum síðasta glugga. Það var mjög margt jákvætt líka. Skammtímalega séð var þessi gluggi ekki nægilega góður, augljóslega. En til langstíma var hann frábær. Hann var frábær gluggi upp á það að ég fékk að kynnast þeim og þeir mér. Ég henti mjög miklum upplýsingum í strákana á skömmum tíma. Sumum finnst það ósanngjarnt en einhvers staðar verðurðu að byrja."

Leikstíllin breytist með komu Arnars, eins og sást í fyrstu leikjunum.

„Það er kannski óðs manns æði að fara í svona miklar breytingar þegar þú hefur fáar æfingar, en þess vegna var ég valinn og við munum ekki fara frá þessu. Það verða líka gerð mistök í næsta glugga en ég hef fasta trú á því að við verðum klárir þegar verkefnið byrjar í haust. Þannig verður það. Við munum ekki fara frá okkar stefnu en auðvitað þurfum við að laga það sem fór úrskeiðis í síðasta glugga."

Meira af fyrri leiknum og minna af seinni leiknum
Hvað viltu sjá í næsta glugga?

„Ég vil fá meira af fyrri leiknum og minna af seinni leiknum. Fyrri leikurinn var að mörgu leyti mjög góður. Það voru nokkrar góðar tölur sem ég var að meta mjög mikils eftir þann leik. Það er sjaldséð að íslenska liðið haldi í boltann jafnvel á jafn erfiðum útivelli. Ég gerði ykkur óða og það var mikið hlegið að mér þegar ég byrjaði með Víkingana og var að vísa í tölfræði en mér finnst ég þurfa að byrja gera það aftur núna með landsliðinu," sagði Arnar.

„Markið okkar var frábært og ég tek það líka með að það er enginn að tala um það af hverju Orri Steinn var gerður að fyrirliða. Hann svaraði því kalli mjög vel. Fyrri hálfleikurinn í seinni leiknum var hörmung. Var það því við vorum að rótera of mikið? Var það af því að menn voru ekki að skilja sínar stöður? Þetta eru spurningar sem ég tel mig hafa svar við. Ég fer yfir það með strákunum. Heilt yfir var það mjög mikilvægt hvað þeir fengu að kynnast mér og mínu leikkerfi. Sumir eru komnir lengra en aðrir í þessari íþrótt okkar og sumir voru bara týndir, ekki vanir að spila svona kerfi. Þá er það mitt að vega og meta hvort þeir verði tilbúnir. Við höfum ekki allan tímann í heiminum til að kenna þeim þetta. Núna er það næsti gluggi þar sem þeir fá tækifæri til að kynnast þessu enn betur."

Ekkert að leika mér að þessu fyrir mitt egó
Arnar er spenntur fyrir því að mæta Skotlandi og Norður-Írlandi og býst þar við krefjandi leikjum þar sem liðið nær vonandi að stilla strengina betur. Hann segir það alltaf pressu að ná í góð úrslit, sama hvort að um æfingaleiki sé að ræða eða ekki.

„Það er alltaf pressa að ná í úrslit. Ég hafði gaman að því að breyta taktíkinni og allt svoleiðis en ég hef ekkert gaman að því að vita eftir leikinn að KSÍ missti af gríðarlegum fjármunum sem er mögulega að kosta einhver störf. Ég er ekkert að leika að mér að gera þetta, ekkert að leika mér að þessu fyrir mitt egó. Við teljum það mikilvægt að byrja einhvers staðar. Við vorum að byrja í alvöru landsleikjum. Sumt tókst vel og sumt ekki, og svo höldum við áfram. Það munu vonandi fleiri hlutir takast vel í þessum glugga. Ég endurtek, við verðum klárir í haust. Það er ekkert flóknara en það," sagði landsliðsþjálfarinn.
Athugasemdir
banner
banner