
Árni Freyr Guðnason, þjálfari Fylkis, var sjáanlega mjög svekktur með úrslit kvöldsins eftir að liðið hans gerði 1-1 jafntefli við Fjölni.
Lestu um leikinn: Fjölnir 1 - 1 Fylkir
„Það eru bara vonbrigði að vinna ekki, sagði Árni stuttorður.
„Við bara vorum ekki alveg nógu góðir og hreyfum boltann ekki nógu hratt. Við lágum á þeim síðustu 20-25 mínúturnar, og þeir fóru ekki í sókn. Við fengum vissulega eitt til tvö fín færi, en boltinn vildi bara ekki fara inn. Svo áttum við margar fyrirgjafir og mörg horn, og stundum er þetta bara þannig."
Fylkismenn eru með fimm stig eftir fyrstu þrjá leiki tímabilsins og miðað við væntingar liðsins hefðu þeir viljað að þeir væru með fleiri stig.
„Við erum ekki búnir að tapa sem er jákvætt. Þannig við þurfum bara að snúa þessum jafnteflum upp í sigra. Erum búnir að spila tvo útileiki, ætluðum okkur að sjáfsögðu sigur hér eins og alltaf. Þannig jú það eru pínu vonbrigði."
Guðmundur Tyrfingsson fór af velli meiddur í síðasta leik en það er ekki langt í hann samkvæmt Árna.
„Hann er með í næsta leik. Hann fékk eitthvað í hælinn, eitthvað hælpúða þar eitthvað. Það er bara stuttur tími."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.