
Ívar Ingimarsson, annar af þjálfurum KR, gat leyft sér að gleðjast eftir rússíbana reið á gervigrasinu í Vesturbænum í dag. KR sigraði HK 5-4, eftir að hafa komið til baka í tvígang
„Geggjað að vinna leikinn og þvílíkur rússíbani líka. Ég er rosa ánægður með þetta líka því við erum nýjar í deildinni og þá er rosa styrkur að geta klárað svona leik. Fyrir gamlan mann á hliðarlínunni þá var þetta þó full mikið upp og niður á köflum en rosa sterkt að klára þetta,“ sagði Ívar með bros á vör í viðtali við Fotbolti.net eftir leik.
KR-ingar fóru með sigrinum eitt á topp deildarinnar með sjö stig. Ívar vill að sýnir leikmenn fái að njóta sín í kvöld áður en fókusinn fer á ÍBV, sem er næsti leikur liðsins.
„Ég myndi segja það klárlega standa upp úr þessi níu mörk sem voru skoruð í dag, fólk á að borga extra fyrir þessa skemmtun. Þetta var hörku leikur alla leið og HK er hörku gott lið og við vorum búin að undirbúa okkur vel fyrir þær en samt skora þær fjögur mörk á okkur en við skoruðum fimm og það er það sem stendur upp úr. Ég sagði við stelpurnar að næst er það bara Eurovision og þær mega njóta vel,“ sagði Ívar Ingimarsson, annar að þjálfurum KR, en viðtalið við hann í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.