„Ég er búinn að díla við smá meiðsli undanfarið og svo hefur Fall spilað mjög vel. Hann er í banni í dag svo ég kom inn og það var mjög gott að geta hjálpað liðinu með að skora og leggja upp. Það er ekki minn náttúrulegi leikur en það var gott að geta skilað því í dag," sagði Elmar Atli Garðarson sem hefur verið á bekknum hjá Vestra að undanförnu en átti frábæran leik í dag í 2 - 0 sigri á KR en þetta var fyrsti sigur liðsins á Ísafirði.
Lestu um leikinn: Vestri 2 - 0 KR
„Stemmningin í hópnum er mjög góð, það hefur verið stígandi í síðustu leikjum og við erum loksins að uppskera í dag þrjú stig. Það hafa verið mörg jafntefli hjá okkur og við verið hungraðir í sigurinn. Það er geggjað að geta loksins gert það hér á heimavelli að koma með þrjú stig í pokann."
Vestri var í basli í byrjun leiks en leikurinn breyttist þegar Vestri komst yfir á 20. mínútu.
„Þeir voru meira með boltann og við lágum aðeins til baka en ég tala fyrir hópinn, okkur leið mjög vel og fannst þeir ekki vera að skapa neitt þannig. Svo er gott að geta refsað þeim fram á við þegar við unnum boltann og mér fannst við gera það mjög vel í dag."
Viðtalið má sjá í spilaranum að ofan.
Athugasemdir