þri 17. september 2019 20:13
Ívan Guðjón Baldursson
Håland fjórði táningurinn sem skorar þrennu
Mynd: Getty Images
Norski táningurinn Erling Braut Häland gekk í raðir RB Salzburg í sumar eftir frábærar frammistöður með Molde. Hann átti 19 ára afmæli í júlí.

Håland hefur farið feykilega vel af stað með Salzburg og er hann kominn með ellefu mörk eftir sjö umferðir í austurrísku deildinni. Í dag er hann að spila sinn fyrsta leik í Meistaradeild Evrópu og er staðan 5-1 í hálfleik, fyrir Salzburg gegn belgíska félaginu Genk.

Håland skoraði þrjú af fimm mörkum heimamanna og er fjórði táningurinn í sögu Meistaradeildarinnar til að skora þrennu í sama leik. Wayne Rooney var sá síðasti til að afreka þetta árið 2004.

Håland er sóknarmaður og gerði 12 mörk í 12 leikjum fyrir U18 og U19 landslið Noregs. Hann gerði svo 11 mörk í 5 leikjum fyrir U20 liðið og er núna búinn að spila 2 A-landsleiki, án þess að skora.

Håland er sonur Alf-Inge Håland sem lék Nottingham Forest, Leeds United og Manchester City áður en Roy Keane batt enda á feril hans með viðbjóðslegri tæklingu.
Athugasemdir
banner
banner
banner