Guðmundur Þórarinsson og Ísak Bergmann Jóhannesson voru á skotskónum í Evrópuboltanum í dag.
Guðmundur, sem varð á dögunum tvöfaldur meistari með armenska liðinu Noah, byrjaði hjá liðinu í 3-3 jafntefli gegn Urartu.
Hann skoraði þriðja mark Noah og tryggði liðinu stig strax í upphafi síðari hálfleiks.
Noah er þegar búið að tryggja sér deildarmeistaratitilinn sem er sá fyrsti í sögu félagsins og þá varð liðið bikarmeistari fyrir fáeinum dögum er það vann Ararat-Armenia, 3-1, í úrslitaleiknum.
Lokaumferðin í þýsku B-deildinni fór fram í dag. Hólmbert Aron Friðjónsson og félagar í Preussen Münster gerðu 2-2 jafntefli við Ulm og tókst með naumindum að bjarga sér frá falli.
Hólmbert var á bekknum en kom ekki við sögu.
Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði annað mark Fortuna Düsseldorf í 4-2 tapi gegn Magdeburg. Valgeir Lunddal Friðriksson kom inn af bekknum í hálfleik, en var skipt af velli á lokamínútunum.
Düsseldorf, sem var lengi vel í baráttu um að komast upp um deild, hafnaði í 6. sæti deildarinnar, fimm stigum frá umspilssæti.
Jón Dagur Þorsteinsson kom þá inn af tréverkinu í 1-1 jafntefli Herthu Berlín gegn Hannover. Hertha hafnaði í 11. sæti deildarinnar.
Davíð Kristján Ólafsson lék allan leikinn í vængbakverðinum hjá Cracovia sem vann Legia, 3-1, í pólsku úrvalsdeildinni. Cracovia er með 48 stig í 6. sæti þegar ein umferð er eftir.
Nóel Atli Arnórsson kom inn á sem varamaður hjá Álaborg sem tapaði fyrir Silkeborg, 3-2, í fallriðli dönsku úrvalsdeildarinnar. Álaborg er fallið niður í B-deildina.
Ágúst Eðvald Hlynsson og Ægir Jarl Jónasson byrjuðu báðir hjá AB sem vann Skive, 3-1, í meistarariðli C-deildarinnar. AB er í 4. sæti með 39 stig. Jóhannes Karl Guðjónsson er þjálfari liðsins.
Athugasemdir