Rashford lækkar launakröfur til að komast til Barcelona - Napoli vill Kiwior - Aston Villa í leit að markverði
   sun 18. maí 2025 16:18
Brynjar Ingi Erluson
England: Falleg kveðjustund í Leicester - Fimm marka leikur í Lundúnum
Jamie Vardy kvaddi með stæl
Jamie Vardy kvaddi með stæl
Mynd: EPA
Harry Wilson skoraði laglegt mark sem tryggði Fulham sigur á Brentford
Harry Wilson skoraði laglegt mark sem tryggði Fulham sigur á Brentford
Mynd: EPA
Jamie Vardy kvaddi Leicester City með 200. marki sínu í 2-0 sigri á Ipswich Town í 37. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Þetta var hans allra síðasti leikur, en hann mun ekki spila með liðinu í lokaumferðinni.

Vardy vildi kveðja Leicester á King Power-leikvanginum fyrir framan haf af stuðningsmönnum félagsins.

Hann var að spila sinn 500. leik fyrir félagið, þrettán árum eftir að hafa komið úr ensku utandeildinni.

Vardy er af mörgum talinn besti leikmaður í sögu Leicester og átti hann stóran þátt í því er það varði Englandsmeistari árið 2016 og bikarmeistari 2021.

Það var því vel við hæfi að hann myndi skora í lokaleik sínum og gerði hann það þegar tæpur hálftími var liðinn. James Justin sendi Vardy í gegn sem náði í 200. mark sitt og fagnaði eins og óður maður fyrir framan stuðningsmenn Leicester.

Kasey McAteer bætti við öðru á 69. mínútu til að tryggja það að Vardy yrði nú kvaddur með sigri. Falleg stund á King Power, en óvíst er hvað tekur við hjá Vardy næst.

Það gæti vel farið svo að hann fari í ensku B-deildinni með Hollywood-liði Wrexham en það á eftir að koma betur í ljós á næstu dögum.

Lærisveinar Ruud van Nistelrooy eru alla vega að klára tímabilið á góðum nótum, nú með tvo sigra og eitt jafntefli í síðustu þremur leikjum, en liðið mætir Bournemouth í lokaumferðinni og getur náð að búa til ágætis grunn fyrir næstu leiktíð.

Fulham vann 3-2 sigur á Brentford á Community-leikvanginum í Lundúnum.

Raul Jimenez kom Fulham yfir á 16. mínútu en kamerúnski sóknarmaðurinn Bryan Mbeumo jafnaði sex mínútum síðar og fékk tækifæri til að koma Brentford yfir þegar liðið fékk vítaspyrnu á 27. mínútu.

Mbeumo hafði skorað úr öllum ellefu vítaspyrnum sínum fyrir Brentford fram að þessu augnabliki, en Bernd Leno var sá fyrsti til að stöðva hann með góðri vörslu.

Undir lok hálfleiksins tókst Brentford að taka forystuna er Yoane Wissa potaði boltanum yfir línuna eftir langt innkast.

Fulham náði að snúa við taflinu á tveimur mínútum í síðari hálfleik. Tom Cairney jafnaði með skalla á 68. mínútu og skoraði Harry WIlson sigurmarkið með frábæru skoti fyrir utan teiginn tveimur mínútum síðar.

Gestirnir í Fulham unnu leikinn og eiga nú enn möguleika á að enda meðal átta efstu. Fulham er í 10. sæti með 54 stig en Brentford í 8. sæti með 55 stig.

Brentford 2 - 3 Fulham
0-1 Raul Jimenez ('16 )
1-1 Bryan Mbeumo ('22 )
1-1 Bryan Mbeumo ('28 , Misnotað víti)
2-1 Yoane Wissa ('43 )
2-2 Tom Cairney ('68 )
2-3 Harry Wilson ('70 )

Leicester City 2 - 0 Ipswich Town
1-0 Jamie Vardy ('28 )
2-0 Kasey McAteer ('69 )


Athugasemdir
banner