
„Virkilega fínt, við byrjum leikinn vel og smám saman bætum við mörkunum i fyrri hálfleik. Dílum ágætlega við það sem FH vildi gera. Það er mikil orka í FH liðinu og þær vilja hafa mikið um návígji og svona og við spiluðum ágætlega í kringum það. Í seinni hálfleik segi ég ekki að við höfum tekið fótinn af bensígjöfinni en sigldum þessu örugglega heim.“ Sagði Ólafur Kristjánsson þjálfari Þróttar um leikinn eftir 4-1 sigur Þróttar á FH í gær er Fótbolti.net greip hann til viðtals að leik loknum.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 4 - 1 FH
LIð FH var í miklu basli við að leysa pressu Þróttar í fyrri hálfleik og komst lið Þróttar í fjölmörg færi eftir að hafa unnið boltann hátt á vellinum. Var þetta einn af þeim hlutum sem Ólafur hafði kortlagt sem veikleika hjá FH liðinu?
„Bæði og. Liðið veit það að þegar við erum aggresívar og hugsum fram á við þá skilar það yfirleitt bestu úrslitunu. “
Þegar maður skoðar ár aftur í tímann hjá liði Þróttar þá er staða liðsins gjörbreytt. Á sama tímapunkti í mótinu í fyrra sat lið Þróttar á botni deildarinnar með aðeins eitt stig. Í dag er liðið hinsvegar í 2.sæti deildarinnar á eftir Breiðablik. Liðin eru jöfn að stigum en markatala Kópavogsliðsins er talsvert betri.
„Það er búið að líða heilt Íslandsmót þannig séð og heill vetur. Mér finnst vera framför hjá liðinu í flestum þáttum leiksins. Leikmenn verið lengur saman, búnar að kynnast mér og við erum auðvitað búin að fá góða leikmenn inn. Svo er bara almenn bæting í hópnum. Við sjáum til dæmis Freyju sem spilaði alls ekki illa í fyrra en núna er hún farin að setja boltann í netið. Það hefur verið stígandi og þetta er ágætis bæting upp á fjórtán stig.“
Sagði Ólafur en allt viðtalið við hann má sjá hér að ofan.
Athugasemdir