
„Auðvitað getum við alveg sagt... Belgía vann Ítalíu, þið töluðuð eins og Belgía gæti ekki neitt. Þetta voru bara hörkuleikir, þetta var stöngin út, stöngin inn. Það er bara stutt á milli í þessu," sagði Þorsteinn Halldórsson aðspurður hvort hann leyfði sér á þessum tímapunkti að vera svekktur út í jafnteflin gegn Belgíu og Ítalíu í fyrstu tveimur leikjum riðilsins.
Lestu um leikinn: Ísland 1 - 1 Frakkland
Ísland gerði jafntefli við Frakkland í lokaumferð riðlakeppninnar en það dugði ekki til og er Ísland úr leik. Steini, sem er þjálfari landsliðsins, sat fyrir svörum á fréttamannafundi eftir leik.
„Við erum að spila á stórmóti og þú þarft líka smá heppni til að hlutirnir falli með þér. Við getum alveg rætt... við hefðum getað komist yfir í fyrri hálfleik á móti Belgíu, komist þá jafnvel í 2-0 í seinni hálfleik - það er hægt að fara í gegnum allskonar. Við hefðum getað komist í 2-0 á móti Ítalíu en í staðinn fáum við mark á okkur. Það er stutt á milli í þessu, þetta eru bara jöfn lið, jöfn keppni og ég er bara stoltur af liðinu og stoltur af mörgu sem við gerðum."
„Ég er ekki kominn þangað að spá í þetta nákvæmlega en auðvitað er maður svekktur, vonsvikinn að komast ekki áfram en við bara höldum áfram, eigum leik eftir sex vikur og við þurfum bara að dvelja ekki of lengi við þetta."
„Við getum borið höfuðið hátt eftir þetta að mínum dómi og það er bara áfram gakk og vonandi tökum við bara næsta skref sem við viljum taka."
Steina var svo bent á þá staðreynd að íslenska liðið er fyrsta liðið til að fara taplaust í gegnum riðlakeppnina á EM án þess að komast í útsláttarkeppnina.
Gerir það þetta ennþá meira svekkjandi?
„Það er reyndar salt í sárin. Ég er bara stoltur af mörgu sem við gerðum hérna. Við fáum á okkur þrjú mörk í þremur leikjum, skorum í hverjum einasta leik, erum að spila á móti góðum þjóðum og erum að tala um það eftir mótið ef og hefði og allt það. Við hefðum alveg getað unnið leik, áttum alveg góða möguleika á því. Það er stutt á milli í þessu en þetta voru ekkert skemmtilegar fréttir. En þú máttir alveg koma með þetta," sagði Steini.
Sjá einnig:
Spurður út í skiptinguna á Söru - „Maður gerir stundum tómar vitleysur"
Stoltur af liðinu - „Var með símann í vasanum"
Ákvað breytingarnar fyrir þremur dögum
Athugasemdir