Það var umdeilt atvik undir lok leiks Atletico Madrid og Liverpool í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í kvöld.
Liverpool spilaði eins og besta lið Evrópu til að byrja með og tók snemma 2-0 forystu. Salah skoraði fyrsta markið og Naby Keita var svo á ferðinni er hann skoraði með flottu skoti.
Atletico gafst ekki upp og tókst þeim að jafna fyrir leikhlé. Antoine Greizmann skoraði bæði mörkin. Sá franski hafði ekki sagt sitt síðasta í leiknum. Hann fékk rautt spjald fyrir að sparka óvart í andlitið á Roberto Firmino snemma í seinni hálfleiknum.
Salah skoraði sigurmark Liverpool úr vítaspyrnu áður en flautað var til leiksloka.
Leikmenn Atletico héldu að þeir væru að fá vítaspyrnu undir lokin. Dómarinn benti á punktinn þegar Jose Gimenez féll í teignum, en eftir VAR-skoðun var dómnum breytt.
„Mér fannst eins og hann hefði getað dæmt víti. Frá línuverðinum séð - myndavélinni þar - þá fannst mér þetta vera víti," sagði Arnar Gunnlaugsson í Meistaradeildarmörkunum á Stöð 2 Sport.
„Þetta gerist þegar sóknarmenn fara að spila vörn," sagði Margrét Lára Viðarsdóttir og átti þar við Diogo Jota, sem braut af sér áður en VAR kom honum til bjargar.
Hægt er að sjá myndband af atvikinu hérna.
Athugasemdir