Amorim bíður eftir leyfi - Nkunku og fleiri orðaðir við Man Utd - Endo eftirsóttur
   fös 20. janúar 2023 13:20
Gylfi Þór Orrason
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Borið í bakkafullan lækinn
Gylfi Þór Orrason
Gylfi Þór Orrason
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Líklega er 11. grein knattspyrnulaganna um rangstöðu sú sem í gegnum tíðina hefur orðið tilefni heitustu deilnanna og háværustu upphrópananna. Þó lagagreinin sjálf láti ekki mikið yfir sér virðist einstaklega auðvelt að mistúlka og misskilja hana. Reyndar virðist oft vera himin og haf á milli þess sem ákvæði lagagreinarinnar þýða í raun og veru og þess sem margir þjálfarar, leikmenn og sparkspekingar telja að þau þýði.

Gott dæmi um þetta eru eftirmálar nágrannaslags Manchester liðanna um daginn, sem kölluðu fram gríðarmikil viðbrögð í fjölmiðlum og á hlaðvörpum og öðrum samfélagsmiðlum um heim allan. Tilefnið var að sjálfsögðu jöfnunarmark þeirra rauðklæddu.

En skoðum regluna frá A-Ö.

Fyrst skal skilgreina sjálfa rangstöðuna (þ.e. hvort leikmaðurinn sé staddur nær marklínu mótherjanna en bæði boltinn og næstaftasti mótherjinn). Hér er sem sagt um að ræða hlutlæga og mælanlega staðreynd. Sé svo nægir það hins vegar ekki eitt og sér til þess að dómaranum beri að dæma rangstöðuna refsiverða. Í raun gæti leikmaður verið í rangstöðu í 90 mínútur án þess að dómaranum beri nokkurn tímann að grípa inn í, því til þess að rangstaða leikmannsins teljist refsiverð þarf hann að gerast virkur þátttakandi í leiknum.

Þrjár ástæður geta verið fyrir því að rangstaða teljist refsiverð, þ.e. að leikmaðurinn:

- hafi áhrif á leikinn.
- trufli mótherja
- hafi hagnað af stöðu sinni


Hverri ástæðu fylgir síðan nánari skilgreining, en hér getum við sleppt þeirri síðustu, sem á einungis við þegar boltinn hrekkur til leikmannsins af markrammanum eða mótherja.

Einbeitum okkur því að tveimur þeim fyrri.

Rashford, sem var augljóslega í rangstöðu hljóp allmörg skref á eftir boltanum (án þess þó að snerta hann), þegar réttstæður Fernandes kom síðan aðvífandi á fleygiferð og skoraði með góðu skoti. Rashford var vissulega nálægt boltanum, en bæði UEFA og FIFA hafa sent frá sér fjölmargar klippur þar sem skýrt kemur fram að nálægð við boltann ein og sér nægir ekki til þess að rangstaðan teljist refsiverð.

Þá skal metið hvort Rashford teljist hafa haft áhrif á leikinn.

Þrátt fyrir gullmolann frá Brian Clough, sem sagði: ”If any of my players isn´t interfering with play he shouldn´t be on the pitch”, þá telst leikmaður samkvæmt laganna hljóðan einungis ”hafa áhrif á leikinn” ef hann snertir bolta sem var sendur til hans eða var snertur af samherja. Á þessu er þó ein undantekning, þ.e. ef útilokað er að samherji hins rangstæða geti náð til boltans og hætta sé á samstuði hins rangstæða við mótherja (oftast markmanninn), en þá ber að flauta strax. Í þessu tilfelli hafði Fernandes hins vegar augljósan möguleika á að ná til boltans og því telst sú undantekning úr myndinni.

Þá stendur einungis eftir möguleikinn á að Rashford hafi ”truflað mótherja”.

Rashford var vissulega með tvo mótherja á hælunum – en það er akkúrat málið – þeir voru á hælum hans. Hann truflaði því ekki með neinum hætti hlaupaleiðir þeirra. Af látbragði þeirra að dæma virtust þeir hins vegar nánast stoppa þar sem þeir gerðu ráð fyrir rangstöðuflaggi.

Framhjá því verður ekki litið að aðstoðardómarinn var þarna of fljótur á sér að flagga rangstöðu því honum bar að bíða og sjá til að taka af allan vafa áður en flaggið færi á loft. Það eru hins vegar bæði gömul sannindi og ný að leikmenn vita að þeir eiga ekki að treysta á flaggið heldur halda áfram þar til flautan gellur.

Rashford truflaði heldur ekki markmanninn með því að vera fyrir í sjón- eða hreyfingalínu hans, enda voru 20 metrar á milli þeirra. Margir sparkspekingar virðast telja að það nægi eitt og sér að Rashford hafi truflað markmanninn við að verjast með sínum eðlilega hætti, en það heldur ekki vatni. Samkvæmt laganna hljóðan er nefnilega stór munur á því að hafa áhrif á mótherja og því að mótherjinn láti eitthvað hafa áhrif á sig. Að öðrum kosti gætu varnarmenn einfaldlega alltaf rétt upp höndina og heimtað flaut í hvert skipti sem þeir sjá mótherja stadda í rangstöðu og sagt hann hafa haft áhrif á sig (sem er í andstöðu við inngang 11. greinarinnar þar sem segir að ”það sé ekki leikbrot í sjálfu sér að vera í rangstöðu”).

En hvað með VAR? Af hverju var dómarinn ekki kallaður í ”VAR-sjána”? Einfaldlega vegna þess að VAR á einungis að grípa inn í þegar um er að ræða”skýr og augljós” mistök dómara, en miðað við hversu mikið hefur verið deilt um réttmæti ákvörðunarinnar þá virðist það ekki geta verið tilfellið hér.

Niðurstaðan hlýtur því að vera sú að markið var löglegt og í fullkomnu samræmi við knattspyrnulögin. Mörgum finnst þessi lagagrein og fyrirmælin um túlkun hennar þó eflaust vera röng eða ósanngjörn (og hafa þar sitthvað til síns máls), en þetta eru engu að síður reglurnar sem dómurunum ber að framfylgja.

Með knattspyrnukveðju.
Gylfi Þór Orrason
Athugasemdir
banner
banner
banner