Á Sigurslóð er félag sem stofnað var í marsmánuði og er tileinkað sögu knattspyrnunnar á Akranesi.
Félagið heldur úti heimasíðu þar sem upplýsingum og sögumolum um leikmenn og viðburði liðinna áratuga er safnað saman á einn stað. Efni heimasíðunnar byggir á áratuga söfnun upplýsinga, sem frumherji verkefnisins Helgi Daníelsson hóf en afhenti keflið Jóni Gunnlaugssyni fyrir um 50 árum (þegar Jón var rétt rúmlega tvítugur leikmaður ÍA liðsins)
Nú hafa synir Jóns tekið við keflinu með stuðningi velunnara verkefnisins.
Saga knattspyrnunnar á Akranesi er alþýðumenning og samfélaginu á Akranesi mikilvæg.
Hún er hluti af sögu bæjarfélagsins, ímyndar þess og orðspors, en um leið hluti af sjálfsmynd íbúanna og minning um einstaklinga, fjölskyldur og viðburði sem mikilvægt er að halda í heiðri. Merk saga styður við ímynd samfélagsins og gerir það áhugavert fyrir þá sem þar búa eða vilja þangað flytja. Sérstakt átak hefur verið gert að grafa upp upplýsingar um kvennaknattspyrnuna á Akranesi og við erum sérstaklega stoltir af því verki.
Heimasíðan: asigurslod.is var opnuð síðastliðinn laugardag 17. september - sama dag og ÍA fór upp í Bestu deildina.
Heimasíðan er nútímaleg og vel hönnuð af Gylfa Steini Gunnarssyni og með gríðarlegu magni upplýsinga, en nú er efnið aðgengilegt öllum og ætlað að ná til fólks á öllum aldri – innan og utan Akraness.
Til að gefa dæmi um umfang síðunnar þá eru núna:
3000 myndir, 3100 úrklippur og 700 myndbönd komin inn.
Alls eru umfjallanir um yfir 2000 leiki karlaliðsins og yfir 800 leiki kvennaliðsins
… og sífellt bætist við heimasíðuna.
Með því að gera þessa merkilegu sögu aðgengilega er opnaður gluggi á leikmenn fortíðar og þann bæjarbrag sem knattspyrnan hafði sterk áhrif á.