Breiðablik 2 - 1 Virtus
0-1 Stefano Scappini ('11, víti)
1-1 Valgeir Valgeirsson ('31)
2-1 Tobias Bendix Thomsen ('55, víti)
0-1 Stefano Scappini ('11, víti)
1-1 Valgeir Valgeirsson ('31)
2-1 Tobias Bendix Thomsen ('55, víti)
Lestu um leikinn: Breiðablik 2 - 1 Virtus
Breiðablik tók á móti AC Virtus frá San Marínó í fyrri leik liðanna í úrslitaeinvígi um sæti í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar og lentu heimamenn undir á elleftu mínútu.
Blikar höfðu byrjað leikinn mun betur og fengið nokkur góð færi á upphafsmínútunum en Viktor Örn Margeirsson gerðist sekur um klaufalegt brot innan vítateigs eftir flotta skyndisókn hjá Virtus. Hann braut á Ivan Buonocunto og skoraði Stefano Scappini örugglega af vítapunktinum.
Þetta var í fyrsta sinn sem Virtus fór yfir miðju í leiknum en gestirnir frá San Marínó vörðust vel og voru hættulegir í skyndisóknum. Þeir fengu færi til að tvöfalda forystuna áður en Valgeir Valgeirsson jafnaði fyrir Blika.
Hann skoraði eftir frábæran undirbúning frá Kristni Steindórssyni sem lék á nokkra varnarmenn Virtus áður en hann gaf boltann út á Valgeir. Skot Valgeirs fór af tveimur varnarmönnum áður en hann endaði í netinu, en gestirnir vörðust á köflum með ellefu menn innan eigin vítateigs.
Í upphafi síðari hálfleiks tóku Blikar forystuna þegar Tobias Thomsen skoraði úr vítaspyrnu. Það er VAR-kerfi á vellinum en teymið ákvað ekki að grípa inn í ákvörðun dómarans um að dæma vítaspyrnu þrátt fyrir að endursýningar hafi sýnt að Valgeir fór niður við litla sem enga snertingu.
„Þetta var nú samt aldrei víti, Valgeir fór niður í teignum eins og hann hafi verið skotinn. Það snerti hann enginn. Það er VAR í leiknum en þeir sammælast niðurstöðu dómarans," segir meðal annars í textalýsingu frá leiknum.
Danski dómari leiksins gerði nokkur skrýtin mistök í síðari hálfleiknum en fleiri mörk litu ekki dagsins ljós. Virtus varðist vel og kom Guðmundur Magnússon boltanum í netið í uppbótartíma en ekki dæmt mark vegna rangstöðu eftir langa athugun í VAR-herberginu.
Lokatölur urðu 2-1 og mega Blikar því ekki tapa seinni leiknum í San Marínó.
21.08.2025 13:00
UTAN VALLAR: Samanburður á fjárhagsstöðu Breiðabliks og AC Virtus
Athugasemdir