fim 22. apríl 2021 18:49
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Er enginn að hugsa um okkur leikmennina"
Ilkay Gundogan, miðjumaður Manchester City, er ekki hrifinn af nýju fyrirkomulagi Meistaradeildarinnar.

Hann telur að umræða um nýtt fyrirkomulag Meistaradeildarinnar hafi gleypst í allri umræðunni um Ofurdeildina síðastliðna viku.

Nýtt fyrirkomulag Meistaradeildar Evrópu var samþykkt í vikunni en það mun taka gildi 2024 og vera til 2033 að minnsta kosti. Nýja fyrirkomulag Meistaradeildarinnar er umdeilt, þátttökuliðum er fjölgað úr 32 í 36 og er riðlakeppnin lögð niður. Hvert lið leikur tíu leikir gegn tíu mismunandi mótherjum.

Liðin raða sér þannig á sérstaka stöðutöflu þar sem efstu átta liðin tryggja sér sæti í útsláttarkeppni. Næstu sextán lið fara í umspil um hin lausu átta sætin.

Það sem er hvað umdeildast við nýja fyrirkomulagið er að tvö af fjórum nýju sætunum í keppninni verður úthlutað miðað við fyrri árangur í keppninni gegnum sérstakan styrkleikalista UEFA. Þar með gæti lið komist í Meistaradeildina þrátt fyrir að enda neðar í deildinni í heimalandinu en eitthvað annað lið sem ekki fær þátttökurétt.

„Getum við líka talað um nýja fyrirkomulagið í Meistaradeildinni?" skrifar Gundogan á Twitter.

„Fleiri og fleiri leikir; er enginn að hugsa um okkur leikmennina? Nýja fyrirkomulagið í Meistaradeildinni er bara það skárra af tveimur illu."

„Fyrirkomulagið sem er núna er frábært og þess vegna er keppnin sú vinsælasta á milli félagsliða í heiminum - hjá leikmönnum og stuðningsmönnum."

Með nýja fyrirkomulaginu verða fleiri leikir hjá liðunum sem komast í keppnina, fleiri stórleikir og meiri peningar.

Hægt er að horfa á myndband hér að neðan frá Tifo Football um nýtt fyrirkomulag keppninnar.


Athugasemdir
banner
banner