Newcastle býr sig undir nýtt tilboð frá Liverpool - Úlfarnir vilja Strand Larsen - Everton hefur áhuga á Ake
   fös 22. ágúst 2025 14:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Umfjöllun
Fölsuð skýrsla á Grenivík - Níu byrjuðu hjá ÍH og leikmenn þurftu að sýna skilríki
Úr leik Magna og Augnabliks fyrr á þessu tímabili.
Úr leik Magna og Augnabliks fyrr á þessu tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Úr leik Magna og ÍH 2023.
Úr leik Magna og ÍH 2023.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Breyting strax á 1. mínútu.
Breyting strax á 1. mínútu.
Mynd: KSÍ/skjáskot
Magni vann á miðvikudagskvöld risasigur á liði ÍH í 3. deildinni, lokatölur urðu 15-0 fyrir heimamenn á Grenivík. Það eru mjög óvenjulegar tölur og hafa vakið talsverða athygli. Magni er á toppi deildarinnar og ÍH á botninum. ÍH er án sigurs frá því í 3. umferð deildarinnar og stærsta tapið fyrir miðvikudaginn var 9-0 tap gegn Augnabliki í lok síðasta mánaðar. Fyrir leik var búist við öruggum sigri Magna, en veðbankar miðuðu í aðdraganda leiksins við að fjögurra marka sigur Magna yrðu eðlileg úrslit í leiknum.

Það var mannekla hjá ÍH á miðvikudaginn, annar flokkur FH, sem skráð er sem sameiginlegt lið FH og ÍH, átti leik gegn sameiginlegu liði Garðabæjar.

Ef leikskýrslan er skoðuð þá sést að ÍH gerði tvær breytingar á liði sínu strax á fyrstu mínútu. Samkvæmt upplýsingum sem Fótbolti.net hefur fengið þá voru leikmenn í liði ÍH á upprunalegri leikskýrslu sem ekki voru mættir til Grenivíkur, heldur aðrir leikmenn sem ekki voru með leikheimild með ÍH. Það komst upp þegar í ljós kom að búningur ÍH var of líkur heimabúningi Magna. ÍH þurfti að skipta um treyjur, fara í varabúning Magna og skrá þurfti menn í ný númer. Menn þurftu að auðkenna sig, dómarinn Björn Benedikt Benediktsson bað menn um að sýna skilríki, og nöfnin pössuðu ekki við nöfnin á leikskýrslunni sem hafði verið gefin út. Fyrst að leikmenn ÍH voru beðnir um skilríki voru heimamenn einnig beðnir um skilríki. Það voru menn sem skráðir voru í byrjunarlið ÍH sem ekki voru á svæðinu. Svo voru menn sem mættir voru til að spila á Grenivík en máttu það ekki, voru ekki með leikheimild, og sagan segir að þeir hafi farið í sundlaugina á Grenivík á meðan leik stóð. Þeir voru í það minnsta ekki sjáanlegir við völlinn á meðan leik stóð.

Um hálftíma seinkun varð á leiknum vegna búningaskiptanna og leikskýrslunnar. ÍH byrjaði með níu leikmenn inn á, leikurinn hófst og tveimur leikmönnum strax skipt inn á. Leikmennirnir sem „fóru af velli" voru skráðir á upphaflegri leikskýrslu en voru ekki á staðnum. Leikurinn var flautaður á, boltanum sparkað í innkast og tveir varamenn komu inn á, tveir leikmenn sem voru skráðir á skýrslu og voru á staðnum. Eftir var einn varamaður sem kom svo inn á um miðbik fyrri hálfleiks vegna höfuðhöggs. Leikmennirnir tólf sem komu við sögu hjá ÍH voru skráðir í félagið, og líka þeir tveir sem voru „teknir af velli" á fyrstu mínútu.

Magnamenn voru orðnir nokkuð pirraðir á seinkun leiksins, mættu vel gíraðir í leikinn og völtuðu yfir Hafnfirðingana. Magni leiddi 8-0 í leikhléi og lokatölur urðu 15-0. Magni er sem fyrr segir í toppsæti deildarinnar og bætti markatöluna sína vel með þessum úrslitum. Liðið er stigi fyrir ofan Hvíta riddarann og þremur stigum fyrir ofan Augnablik í 3. sætinu.

Einhverjir gætu spurt sig að því hvort að leikur geti farið af stað þegar annað liðið er ekki með ellefu leikmenn inn á. Reglan er sú að a.m.k. sjö leikmenn verða að vera inn á í báðum liðum svo að leikur geti farið af stað, og einn af þeim þarf að vera markmaður.

Það hefur verið mikil leikmannavelta hjá ÍH en alls hafa 62 leikmenn komið við sögu í leikjunum átján. Jón Ásbjörnsson var skráður þjálfari ÍH í leiknum.

KSÍ er með málið, leik Magna og ÍH, til skoðunar og líklegt að aganefnd sambandsins taki málið fyrir. Fölsun á skýrslu er augljóslega brot á reglum og verður forvitnilegt að fylgjast með framvindu mála.

Leikskýrslan á KSÍ
3. deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Magni 18 13 2 3 51 - 20 +31 41
2.    Hvíti riddarinn 18 13 1 4 51 - 27 +24 40
3.    Augnablik 18 11 5 2 43 - 21 +22 38
4.    Reynir S. 18 8 5 5 40 - 39 +1 29
5.    Árbær 18 8 4 6 42 - 41 +1 28
6.    Tindastóll 18 8 2 8 41 - 32 +9 26
7.    KV 18 7 4 7 57 - 44 +13 25
8.    Ýmir 18 5 6 7 30 - 31 -1 21
9.    KF 18 5 5 8 31 - 29 +2 20
10.    Sindri 18 4 4 10 26 - 38 -12 16
11.    KFK 18 4 3 11 22 - 43 -21 15
12.    ÍH 18 1 1 16 26 - 95 -69 4
Athugasemdir
banner