
Thelma Karen Pálmadóttir, leikmaður FH, var best á Laugardalsvellinum í úrslitaleik Mjólkurbikarsins síðasta laugardag. FH tapaði leiknum en hin 16 ára gamla Thelma Karen var samt sem áður valin maður leiksins af Fótbolta.net. Fyrir það fékk hún verðlaun frá Mjólkursamsölunni í dag.
Breiðablik vann leikinn 3-2 eftir framlengingu en þetta var fyrsti bikarúrslitaleikur FH. Thelma og liðsfélagar hennar skildu allt eftir á vellinum.
Breiðablik vann leikinn 3-2 eftir framlengingu en þetta var fyrsti bikarúrslitaleikur FH. Thelma og liðsfélagar hennar skildu allt eftir á vellinum.
„Þetta var frábær upplifun og ótrúlega skemmtilegur leikur. Það var samt svekkjandi að hann fór eins og hann fór," sagði Thelma Karen við Fótbolta.net í dag.
„Það var fullt af fólki á vellinum og þetta var mjög gaman."
Thelma Karen, sem er fædd árið 2008 gerði tvennu í leiknum og var óheppin að skora ekki þrennuna.
„Þetta eru tvö mjög skemmtileg lið og það er alltaf gaman þegar FH og Breiðablik mætast. Við eigum eftir að mæta þeim tvisvar aftur og það verða vonandi skemmtilegir leikir líka."
„Það voru allar í liðinu svekktar en við vorum samt stoltar með frammistöðuna. Við fundum það stelpurnar, þjálfararnir og allt fólkið sem kom að þessu að þetta var ótrúlega stórt fyrir okkur. Vonandi gerum við þetta sem oftast."
Thelma Karen á að baki 32 unglingalandsleiki og hefur í þeim skorað tíu mörk. Hún hefur blómstrað á þessu tímabili og oftar en ekki verið í liði umferðarinnar hér á Fótbolta.net. Hún var nýverið orðuð við ítalska félagið Roma en er einbeitt á Fimleikafélagið.
„Núna er allur minn fókus á að gera vel með FH og að vera í toppbaráttunni," sagði Thelma.
„Það er alveg gaman (að heyra af áhuga Roma) en ég ætla ekki að láta það trufla mig. Núna er ég bara að einbeita mér að FH og ætla að halda áfram að gera það."
Hún segir það auðvitað markmið sitt í framtíðinni að spila með A-landsliðinu og í atvinnumennsku, en hún er ekkert að stressa sig á því núna.
Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir