
„Þetta kom upp eftir Evrópumótið. Það var tími sem fór í það fyrir félögin voru að reyna að ná samkomulagi en þegar það gerðist þá gerðist þetta mjög hratt. Ég var mætt í læknisskoðun daginn eftir," segir landsliðskonan Katla Tryggvadóttir sem gekk fyrir stuttu í raðir ítalska stórliðsins Fiorentina.
Katla, sem er tvítug, hefur spilað frábærlega með Kristianstad í Svíþjóð undanfarin misseri eftir að hafa áður leikið með Þrótti Reykjavík við góðan orðstír. Hún er uppalin Valsari.
Katla, sem er tvítug, hefur spilað frábærlega með Kristianstad í Svíþjóð undanfarin misseri eftir að hafa áður leikið með Þrótti Reykjavík við góðan orðstír. Hún er uppalin Valsari.
Fyrr í sumar spilaði hún á sínu fyrsta stórmóti með Íslandi og svo gekk hún í raðir Fiorentina; nokkrar vikur sem breyttu lífi hennar.
„Ég var ekki búin að heyra af þessu fyrir EM en ég var búin að tala við umboðsmanninn um að við myndum bara tala saman eftir EM svo það væri ekkert að trufla mig. Núna veit ég ekki alveg hvernig þetta kom til en Evrópumótið hefur líklegast hjálpað," segir Katla sem sýndi flotta takta á EM með Íslandi.
Það voru fleiri félög að fylgjast með Kötlu en Fiorentina heillaði mikið.
„Það voru einhver fleiri félög inn í myndinni en Fiorentina sýndi mjög mikinn áhuga. Fiorentina er frábært lið með frábæran þjálfara sem ég var spennt að vinna með," segir leikmaðurinn efnilegi.
Klikkuð aðstaða
Lífið í fótboltanum getur breyst hratt en það er ekki langt síðan Katla var að leika sér í Laugardalnum með Þrótti. Núna er nýbúin að spila á stórmóti með Íslandi og er mætt í eitt stærsta félag Ítalíu.
„Það er ótrúlega margt nýtt hérna sem ég þarf að venjast. Það var erfitt að kveðja liðið og fjölskylduna sem ég var búin að eignast í Kristianstad en svona er það að vera fótboltakona, lífið getur tekið ótrúlegustu snúninga," segir Katla.
„Ég var alltaf heilluð af Fiorentina og leist mjög vel á þetta. Hér er klikkuð æfingaaðstaða og deildin er að verða sterkari. Ég er að æfa með frábærum leikmönnum og veit að ég er komin í umhverfi þar sem ég mun bæta mig mikið. Það er hátt tempó á æfingum og miklar kröfur í öllu sem við gerum."
Hún segir að það hafi gengið vel að koma sér fyrir í nýju umhverfi og aðstaðan hjá félaginu sé til fyrirmyndar.
„Það hefur gengið vel að koma mér fyrir. Stelpurnar hafa tekið mjög vel á móti mér og það hjálpar hvað það eru margir Skandínavíubúar í hópnum. Það er auðvelt að tala við þær og svo er maður að kynnast Ítölunum sem er skemmtilegt," segir Katla.
„Það eru einhverjir 13 æfingavellir og við erum með sér líkamsrækt. Þetta er allt glænýtt. Við erum með sömu aðstöðu og karlarnir, en þetta er eitt flottasta svæði sem ég hef séð."
Fer til Kristianstad í næsta fríi
Kötlu þykir rosalega vænt um tímann sinn hjá Kristianstad sem hefur verið Íslendinganýlenda í gegnum árin. Elísabet Gunnarsdóttir var þar lengi þjálfari og núna eru þarna tveir íslenskir leikmenn eftir að Katla fór, Alexandra Jóhannsdóttir og Guðný Árnadóttir.
„Tíminn hjá Kristianstad var geggjaður, það var mjög gott skref fyrir mig. Ég fékk mikið traust þarna og þetta var gott eitt og hálft ár. Mér fannst ég bæta mig mikið við að spila í sænsku úrvalsdeildinni og þetta var rosalega góður skóli; mikil taktík og mikil hugsun á bak við hlutina í sænska boltanum," segir Katla sem var orðin ein af fyrirliðum liðsins þrátt fyrir að hafa ekki verið þar lengi.
„Þetta er bara fjölskylda. Ég er bara á leiðinni til Kristianstad næst þegar ég frí. Kannski fer ég líka til Íslands," sagði Katla og hló.
„Mér þykir rosalega vænt um þennan stað eftir að hafa verið þarna og þetta er tími sem mér þykir vænt um. Ég er rosalega þakklát fyrir tímann, allt traustið og allt fólkið sem hjálpaði mér. Það er það sem stendur upp úr. Mér finnst ég hafa bætt mig mikið sem leikmaður en ekki bara það, líka sem karakter. Ég hef stækkað á öllum sviðum fótboltans."
Alexandra Jóhannsdóttir, sem var liðsfélagi Kötlu hjá Kristianstad, er fyrrum leikmaður Fiorentina sem endaði í fjórða sæti ítölsku deildarinnar á síðustu leiktíð.
„Ég talaði við Alexöndru, já. Hún er ein af mínum bestu vinkonum og ég fékk góðar upplýsingar frá henni," segir Katla.
Augljóst hversu stórt félag þetta er
Katla segist alveg finna fyrir því hversu stórt félag Fiorentina er og er hún spennt fyrir komandi tímum.
„Ég finn hversu stórt félag þetta er. Þetta er mjög fagmannlegt og hlutirnir eru vel gerðir og vandaðir. Það er allt gert svo við getum skilað sem bestri frammistöðu," segir Katla.
„Það er markmiðið að vera í toppbaráttunni. Það er ótrúlega spennandi að spila í ítölsku úrvalsdeildinni sem er á mikilli uppleið. Það eru ótrúlega góðir leikmenn að spila í þessari deild. Þetta er stórt skref frá Svíþjóð þegar kemur að gæðum. Ég er rosalega spennt fyrir tímabilinu."
Fer beint í reynslubankann
Eins og áður kemur fram var Katla á sínu fyrsta stórmóti í sumar með íslenska landsliðinu. Árangurinn var ekki eins og ætlast hafði verið til en upplifunin fer beint í reynslubankann.
„Það var mjög mikil upplifun að spila á EM og eftir mót tók tíma að melta allt saman. Við ætluðum okkur miklu stærri hluti en niðurstaðan var önnur. Ég er ung og þetta fer beint í bankann hjá mér. Ég get ekki beðið eftir næsta stórmóti," sagði Katla en næsta verkefni er í október gegn Norður-Írlandi í Þjóðadeildinni.
„Landsliðið er samansafn af mínum bestu konum. Ég er alltaf spennt að koma í landsliðið," sagði þessi frábæri leikmaður að lokum.
Nýtt tímabil hjá Kötlu og Fiorentina hefst á morgun er liðið mætir Como í ítalska bikarnum.
Athugasemdir