
Sandra María Jessen fyrirliði skoraði eitt af fjórum mörkum í þægilegum sigri Þórs/KA gegn botnliði FHL í Bestu deildinni í kvöld.
Lestu um leikinn: Þór/KA 4 - 0 FHL
Sandra var lífleg í leiknum og hefði getað skorað fleiri mörk þar sem hún brenndi meðal annars af vítaspyrnu. Hún var ánægð í viðtali að leikslokum en Þór/KA er í efri hluta deildarinnar með 21 stig eftir 14 umferðir. Þetta var fyrsti sigur liðsins í tvo mánuði eftir þrjá tapleiki í röð.
„Það er mjög gott að landa sigri, ná að skora fjögur og halda hreinu. Það er rosalega góð tilfinning. Það var kraftur í liðinu sem smitaði frá sér og stelpurnar voru að hjálpa mér að komast í góðar stöður, skapa færi og ná inn marki. Það var frábært. Auðvitað hefði maður átt að klára þetta víti líka, en það er allt í góðu maður getur klúðrað því," sagði Sandra María, sem er þriðja markahæst í Bestu deildinni sem stendur með 10 mörk eftir 14 umferðir.
„Það er alltaf gaman að skora og keppast um markatitilinn en svo lengi sem liðið er að vinna og gengur vel þá er maður ánægður.
„Núna er bara að leyfa sér að njóta og hafa gaman í kvöld. Það er fínt fyrir okkur að fá að vera í smá sigurvímu eftir langa bið eftir sigri en svo á morgun er strax fókus á næsta verkefni."
Athugasemdir