Kantmaðurinn Johan Bakayoko skipti yfir til RB Leipzig í sumar fyrir um 22 milljónir evra.
Hann var gríðarlega eftirsóttur enda falur fyrir mjög gott verð en ákvað að lokum að hlusta á Jürgen Klopp, fyrrum þjálfara Liverpool sem starfar í dag sem yfirmaður hjá Red Bull fótboltasamsteypunni.
Flest stórlið evrópska boltans voru orðuð við Bakayoko fyrri part sumars en hann kaus að lokum að skipta til Leipzig.
„Ég var áhugasamur um að fara til Leipzig en eftir að hafa rætt við Jurgen Klopp vissi ég að ég þyrfti að fara þangað. Við áttum mjög góðar samræður um fótbolta, hann sannfærði mig með hugmyndafræði sinni um fótbolta. Minn leikstíll passar fullkomlega við liðið," sagði Bakayoko meðal annars.
„Þegar einstaklingur eins og Klopp vill að maður sé partur af verkefninu hjá sér þá er erfitt að segja nei. Hann var alls ekki ýtinn, heldur útskýrði hann hugmyndafræðina og gaf mér möguleika á að taka mína eigin ákvörðun. Mér líkaði mjög vel við það, hann lítur á mann sem einstakling en ekki tölu. Ég vil gera mitt besta til að hjálpa félaginu."
Bakayoko er snöggur og fimur kantmaður sem nýtur þess að taka menn á og notast við ýmsar brellur til að leika á andstæðinga sína. Hann skoraði 12 mörk og gaf 3 stoðsendingar á síðustu leiktíð en skapaði mikið af góðum marktækifærum og var því óheppinn að koma ekki að fleiri mörkum.
Hann skoraði í leik PSV Eindhoven gegn Liverpool á síðustu leiktíð og var gagnrýndur af sínum eigin þjálfara að leikslokum fyrir að reyna of mikið af brellum í leiknum.
„Þetta er bara partur af leikstílnum mínum og gerist náttúrulega. Ég er ekki að neyða sjálfan mig til að reyna brellur útaf því að einhver sagði mér það, þetta er eitthvað sem ég hef alltaf gert."
Leipzig byrjar nýtt deildartímabil á erfiðum útileik gegn ríkjandi Þýskalandsmeisturum FC Bayern annað kvöld.
Bakayoko er aðeins 22 ára gamall en hefur þegar spilað 18 landsleiki fyrir Belgíu.
16.07.2025 21:00
Bakayoko til Leipzig (Staðfest)
Athugasemdir