Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fös 24. apríl 2020 22:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Tíu fótboltaleikir sem gaman er að rifja upp
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Man Utd með Meistaradeildarbikarinn eftir sigurinn á Bayern 1999.
Man Utd með Meistaradeildarbikarinn eftir sigurinn á Bayern 1999.
Mynd: Getty Images
Ole Gunnar Solskjær er stjóri Man Utd í dag. Hann skoraði sigurmarkið 1999.
Ole Gunnar Solskjær er stjóri Man Utd í dag. Hann skoraði sigurmarkið 1999.
Mynd: Getty Images
Árni Gautur var í markinu hjá Manchester City í mögnuðum endurkomusigri á Tottenham.
Árni Gautur var í markinu hjá Manchester City í mögnuðum endurkomusigri á Tottenham.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Joey Barton fékk rautt spjald fyrir tuð.
Joey Barton fékk rautt spjald fyrir tuð.
Mynd: Getty Images
Ronaldinho skoraði eftirminnilegt mark í leiknum á Brúnni.
Ronaldinho skoraði eftirminnilegt mark í leiknum á Brúnni.
Mynd: Getty Images
Steven Gerrard og Rafa Benitez með Meistaradeildarbikarinn.
Steven Gerrard og Rafa Benitez með Meistaradeildarbikarinn.
Mynd: Getty Images
Dudek var hetjan í vítaspyrnukeppninni.
Dudek var hetjan í vítaspyrnukeppninni.
Mynd: Getty Images
Íslenska kvennalandsliðið komst í fyrsta sinn á EM árið 2008 með sigri á Írlandi í frostinu á Laugardalsvelli.
Íslenska kvennalandsliðið komst í fyrsta sinn á EM árið 2008 með sigri á Írlandi í frostinu á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dóra María skoraði tvennu.
Dóra María skoraði tvennu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Barcelona-liðið frá 2008/09 er eitt það besta í sögunni. Hér fagnar Lionel Messi marki það tímabilið.
Barcelona-liðið frá 2008/09 er eitt það besta í sögunni. Hér fagnar Lionel Messi marki það tímabilið.
Mynd: Getty Images
Ólafur Karl Finsen fagnar með stuðningsmönnum eftir að hafa tryggt Stjörnunni Íslandsmeistaratitilinn árið 2014.
Ólafur Karl Finsen fagnar með stuðningsmönnum eftir að hafa tryggt Stjörnunni Íslandsmeistaratitilinn árið 2014.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kolbeinn Sigþórsson fagnar marki sínu gegn Englandi.
Kolbeinn Sigþórsson fagnar marki sínu gegn Englandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir lokaflautið í Nice. Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, vægast sagt ánægður.
Eftir lokaflautið í Nice. Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, vægast sagt ánægður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Roy Hodgson sagði af sér sem landsliðsþjálfari Englands strax eftir tapið gegn Íslandi.
Roy Hodgson sagði af sér sem landsliðsþjálfari Englands strax eftir tapið gegn Íslandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Marki fagnað í stórkostlegum sigri Íslands á Þýskalandi.
Marki fagnað í stórkostlegum sigri Íslands á Þýskalandi.
Mynd: Fotbolti.net - Anna Þonn
Úr leiknum gegn Þýskalandi.
Úr leiknum gegn Þýskalandi.
Mynd: Fotbolti.net - Anna Þonn
Birkir Bjarnason heldur í höndina á Messi í jafnteflinu gegn Argentínu á HM.
Birkir Bjarnason heldur í höndina á Messi í jafnteflinu gegn Argentínu á HM.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hannes Þór varði víti frá Messi. Eitthvað sem mun seint gleymast.
Hannes Þór varði víti frá Messi. Eitthvað sem mun seint gleymast.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er svo gott sem enginn fótbolti spilaður um þessar mundir og er því tilvalið að rifja upp gamla og eftirminnilega fótboltaleiki. Hér eru teknir saman tíu fótboltaleikir sem vert er að líta til baka og skoða aftur.

Þetta er ekki topp tíu listi, um tímaröð er að ræða.

Manchester United 2 - 1 Bayern München
Meistaradeildin 1999 - Úrslitaleikur
Leikur sem höfundur man ekki vel eftir enda ekki orðinn eins árs gamall þegar hann fór fram. Samt er þetta leikur sem verður að koma fram á þessum lista.

Dagurinn var 26. maí 1999 og hitinn var um 20 gráður í Barcelona. Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar fór fram á Nývangi og í honum mættust Manchester United og Bayern München. Mario Basler kom Bayern eftir aðeins sex mínútur og var Bayern hættulegri aðilinn í leiknum. Man Utd var án Paul Scholes og Roy Keane í leiknum þar sem þeir voru í banni. Þeirra var saknað og það stefndi í sigur Bayern. Staðan var enn 1-0 þegar uppbótartíminn hófst, en í uppbótartímanum gerðust ótrúlegir atburðir sem seint gleymast í fótboltasögunni. Teddy Sheringham jafnaði á 91. mínútu og á 93. mínútu tryggði Ole Gunnar Solskjær, núverandi stjóri Manchester United, sínum mönnum sigurinn.

Með þessum ótrúlega sigri fullkomnaði Manchester United þrennuna 1998/99 tímabilið. Liðið vann ensku úrvalsdeildina, enska bikarinn og Meistaradeildina.

Tottenham 3 - 4 Man City
FA-bikarinn 2004 - 4. umferð
Einn af fjölmörgum skemmtilegum leikjum sem hafa verið í þeirri elstu og virtustu á Englandi. Tottenham tók á móti Manchester City á gamla White Hart Lane á febrúarkvöldi 2004 í fjórðu umferð FA-bikarsins. Um var að ræða endurtekinn leik eftir að liðin höfðu gert 1-1 jafntefli í Manchester 11 dögum áður.

Árni Gautur Arason lék aðeins tvo leiki fyrir Man City og þetta var annar þeirra. Ekki amalegur leikur fyrir hann að taka þátt í. Hann var í markinu hjá Man City þetta kvöld og byrjaði leikurinn alls ekki vel fyrir hann og hans liðsfélaga. Ledley King skoraði eftir aðeins tvær mínútur. Robbie Keane og Christian Ziege bættu við mörkum fyrir Spurs áður en hálfleiksflautið heyrðist. Staðan var 3-0 í hálfleik. Ekki nóg með það því Joey Barton, þá miðjumaður City, fékk að líta sitt annað gula spjald þegar liðin gengu til búningsklefa. Hann reifst við dómarann sem rak hann af velli. Tíu leikmönnum Man City tókst þó einhvern veginn að koma til baka og vinna leikinn, 4-3. Varnarmaðurinn Sylvain Distin minnkaði muninn á 48. mínútu og í kjölfarið fylgdu mörk frá Paul Bosvelt, Shaun Wright-Phillips og Jon Macken.

Algjörlega mögnuð endurkoma hjá Man City sem féll þó úr leik gegn nágrönnum sínum í Manchester United í 16-liða úrslitunum.

Chelsea 4 - 2 Barcelona
Meistaradeildin 2005 - 16-liða úrslit
Satt besta að segja þá er þessi leikur ein af fyrstu fótboltaminningum höfundar þessarar greinar. Meistaradeildarkvöld á Stamford Bridge, Eiður Smári, Ronaldinho og gullfallegir búningar Barcelona. Það er eiginlega ekki hægt að biðja um mikið meira.

Eiður Smári Guðjohnsen setti tóninn með því að skora fyrsta mark leiksins á áttundu mínútu og þannig hafði Chelsea jafnað einvígið í 2-2 eftir 2-1 sigur Börsunga á heimavelli. Frank Lampard tvöfaldaði forystu Chelsea á 17. mínútu og Damien Duff gerði þriðja mark heimamanna tveimur mínútum síðar. Þá var röðin komin að Ronaldinho sem skoraði úr vítaspyrnu á 27. mínútu. Rúmum tíu mínútum síðar gerði hann svo eftirminnilegasta mark leiksins. Það var eins og tíminn hefði stöðvast þegar brasilíski töframaðurinn fékk boltann fyrir utan vítateiginn. Hann sýndi glæsta takta áður en hann smellti boltanum með táarskoti fram hjá Petr Cech og í netið; bara eins og ekkert væri einfaldara. Staðan 3-2 og Barcelona á leiðinni áfram, en í síðari hálfleiknum skoraði fyrirliðinn John Terry mark eftir hornspyrnu sem fleytti Chelsea áfram.

Áhugavert er að rýna í textalýsingu The Guardian frá leiknum. Þar skrifar Barry Glendenning fyrir leik: „Ég vildi fara og fjalla um leik Burnley og Leicester í Championship-deildinni í kvöld, en í staðinn var ég neyddur til að horfa á þennan Evrópuleik," skrifaði Glendenning. Leikur Burnley og Leicester það sama kvöld endaði markalaus.

AC Milan 3 - 3 Liverpool
Meistaradeildin 2005 - úrslitaleikur
Þegar talað er um goðsagnakennda fótboltaleiki þá er þetta eflaust fyrsti leikurinn sem kemur upp í hugann á mörgum. Kraftaverkið í Istanbúl 2005 sem varð til þess að Liverpool vann sinn fimmta Evrópumeistaratitil.

Sagan er vel þekkt. AC Milan var sigurstranglegri aðilinn fyrir leik og tók forystuna á fyrstu mínútu leiksins með marki Paolo Maldini. Hernan Crespo bætti við tveimur mörkum fyrir leikhlé og var staðan 3-0 fyrir Milan í hálfleik. Staðan virtist ómöguleg fyrir Liverpool, en í seinni hálfleiknum gerðist það ómögulega og Liverpool jafnaði með þremur mörkum á sex mínútna kafla. Steven Gerrard, Vladimír Smicer og Xabi Alonso gerðu mörkin. Það þurfti vítaspyrnukeppni til að útkljá sigurvegarann og í vítakeppninni var það Jerzy Dudek, markvörður Liverpool, sem var hetjan. Svo sannarlega skemmtilegt fyrir stuðningsmenn Liverpool að rifja þetta kvöld upp.

Ísland 3 - 0 Írland
Umspil fyrir EM kvenna 2009
Árið er 2008. Íslenska kvennalandsliðið á leik gegn Írlandi og hitastigið er við frostmark. Laugardalsvöllur er í takt við það, og er erfitt að fóta sig á vellinum. Íslensku stelpurnar áttu möguleika á að tryggja sig inn á stórmót í fyrsta sinn í sögunni.

Ísland gerði jafntefli í fyrri leik sínum við Írland í umspili fyrir Evrópumótið og var því í góðum málum þegar í Reykjavík var komið. Dóra María Lárusdóttir braut ísinn um miðbik fyrri hálfleiks og eftir klukkutíma leik bætti Margrét Lára Viðarsdóttir við öðru marki Íslands. Dóra María gerði svo annað mark sitt og þriðja mark Íslands þegar rúmar 20 mínútur voru eftir. Markið kom eftir sendingu Margrétar Láru og Ísland komið á EM í fyrsta sinn. Sögulegur áfangi sem það var í íslenskri knattspyrnusögu.

Stórkostlegur árangur, en á EM lenti Ísland í erfiðum riðli með Frakklandi, Noregi og Þýskalandi. Ísland hafnaði í neðsta sæti riðilsins án stiga þrátt fyrir að hafa barist vel í öllum þremur leikjunum.

Umfjöllun:
Umfjöllun: Ísland fer á EM 2009

Real Madrid 2 - 6 Barcelona
Spænska úrvalsdeildin 2009
Þá vindum við okkur til ársins 2009 þegar mögulega besta knattspyrnulið sögunnar sýndi sínar bestu hliðar á Santiago Bernabeu. Lið Barcelona á fyrsta ári sínu undir stjórn Pep Guardiola var algjörlega magnað fótboltalið.

Einn besti El Clasico leikur síðari ára var í maí 2009 þegar Barcelona fór í heimsókn til Real Madrid. Madrídarstórveldið hafði átt brösugt tímabil, en átti þarna möguleika á að minnka forskot Börsunga á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar í eitt stig þegar fimm leikir voru eftir. Heimamenn byrjuðu leikinn ótrúlega vel og skoraði Gonzalo Higuain fyrsta mark leiksins. Forysta Real entist aðeins í fjórar mínútur og gerði Thierry Henry jöfnunarmarkið. Carles Puyol kom svo Barcelona í 2-1. Lionel Messi spilaði í falskri níu og varnarmenn Real Madrid réðu ekkert við argentíska snillinginn er Börsungar völtuðu erkifjendur sína.

Barcelona vann spænsku úrvalsdeildina þetta tímabil, og alla aðra titla sem voru í boði. Eiður Smári Guðjohnsen var hluti af liðinu, en hann kom ekki við sögu í leiknum gegn Real Madrid.

FH 1 - 2 Stjarnan
Pepsi-deild karla 2014
Það var allt undir á Kaplakrikavelli þegar FH og Stjarnan mættust í lokaumferð Pepsi-deildar karla í byrjun október 2014. Hvorugt lið hafði tapað leik í deildinni þegar í þennan leik var komið og var Íslandsmeistaratitillinn undir. Stjarnan þurfti að vinna, en FH dugði jafntefli.

Stemningin var rafmögnuð og spennan gríðarleg. Stjarnan komst yfir undir lok fyrri hálfleiks með mjög svo ólöglegu marki sem Ólafur Karl Finsen skoraði. Hann var vel rangstæður, en markið fékk að standa. Staðan var 1-0 í hálfleik, en eftir stundarfjórðung í síðari hálfleik dró til tíðinda þegar Veigar Páll Gunnarsson fékk að líta rauða spjaldið fyrir að slá til Hólmars Arnars Rúnarssonar. Stjörnumenn voru því einum færri síðasta hálftíma leiksins. Einum fleiri jöfnuðu FH-ingar og var Steven Lennon þar að verki eftir sendingu Atla Guðnasonar. FH var í góðum málum einum fleiri og þeir fengu svo sannarlega færi til að klára leikinn, en ekki tókst þeim að skora annað mark. Það reyndist dýrkeypt því á 92. mínútu fékk Stjarnan svo vítaspyrnu er Kassim Doumbia var dæmdur brotlegur innan teigs.

Ólafur Karl Finsen fór á punktinn og skoraði. Hann tryggði þar með Stjörnunni sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í leik sem skorti ekki dramatík.

England 1 - 2 Ísland
EM 2016 - 16-liða úrslit
Stærsti sigur Íslenskrar íþróttasögu vannst í Nice sumarið 2016 þegar Íslendingar unnu England, 2-1, í 16-liða úrslitunum í lokakeppni Evrópumótsins.

Íslenska karlalandsliðið var þarna í fyrsta sinn á stórmóti og komst upp úr riðlinum með 2-1 sigri á Austurríki í París. Það varð til þess að við mættum Englandi í 16-liða úrslitunum. Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir okkar menn sem lentu undir eftir aðeins fjórar mínútur. Hannes Þór Halldórsson braut af Raheem Sterling innan teigs og fór Wayne Rooney á punktinn. Rooney skoraði af öryggi og staðan 1-0. Hún var það hins vegar ekki lengi því Ísland jafnaði á sjöttu mínútu með marki Ragnars Sigurðssonar. Á 18. mínútu kom Kolbeinn Sigþórsson Íslandi svo yfir.

Enska liðið komst ekki nálægt því að skora eftir mark Kolbeins. Þannig er það alla vega í minningunni - þó að stressið hafi verið mikið. Lokatölur voru 2-1 og fögnuðurinn í Nice ógurlegur. Litla Ísland tókst að leggja England að velli á stórmóti. Magnaður dagur, 28. júní 2016.

Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englands, sagði af sér strax eftir leik og Ísland fór í 8-liða úrslit. Þar mættum við Frakklandi sem reyndist aðeins of stór biti. Strákarnir fengu svo hetjumóttökur við heimkomuma til Íslands enda höfðu þeir gefið þjóðinni eitt besta sumar í manna minnum.



Þýskaland 2 - 3 Ísland
Undankeppni fyrir HM kvenna 2019
Föstudaginn 20. október 2017 sýndi íslenska kvennalandsliðið magnaða frammistöðu í Wiesbaden í Þýskalandi þegar það vann 3-2 útisigur gegn heimakonum sem voru í öðru sæti á heimslista FIFA.

Íslenska kvennalandsliðið hafði ekki skorað gegn Þýskalandi í 30 ár áður en Dagný Brynjarsdóttir braut ísinn í leiknum í dag með marki af stuttu færi á 15. mínútu. Þýskaland jafnaði fyrir hálfleik en Elín Metta Jensen endurheimti forystuna fyrir Ísland með frábæru marki. Dagný skoraði svo sitt annað mark og jók forystu Íslands í 3-1. Þýskaland náði að minnka muninn í lokin og pressaði stíft í blálok leiksins en tókst ekki að jafna. Stórkostleg frammistaða hjá stelpunum okkar gegn Þýskalandi og einn fræknasti sigur kvennalandsliðsins frá upphafi.

Ísland endaði í öðru sæti í riðlinum að lokum, á eftir Þýskalandi og komst ekki á HM - því miður.

Smelltu hér til að sjá mörkin úr kvöldfréttum Stöðvar 2.

Argentína 1 - 1 Ísland
HM 2018 - riðlakeppni
Þá er komið að síðasta leiknum í þessari upptalningu og er líklega sá ferskasti í minningunni. Leikur Argentínu og Íslands á HM í Rússlandi sumarið 2018. Fyrsti leikur Íslands á HM í fótbolta og var það gegn Lionel Messi og félögum í Argentínu.

Það var Argentína sem komst yfir. Sergio Aguero skoraði þá frábært mark eftir misheppnað skot Marcos Rojo. Staðan 1-0 fyrir Argentínu en hún var það ekki lengi því Alfreð Finnbogason jafnaði á 22. mínútu. „ALFREÐ FINNBOGASON HEFUR JAFNAÐ Í 1-1!!! ÞARNA!! Ísland náði að setja smá pressu á argentínska liðið, Hörður Björgvin átti sendingu yfir til hægri á Gylfa, hann með sendingu inn í teiginn. Caballero í tómu tjóni, Birkir Bjarna setti pressu á hann og boltinn datt út á Alfreð sem skoraði," skrifaði Elvar Geir Magnússon í beinni textalýsingu á Fótbolta.net. Staðan var 1-1 í hálfleik í Moskvu og var seinni hálfleikurinn erfiður. Argentína pressaði og fékk liðið vítaspyrnu á 64. mínútu. Messi fór á punktinn, en Hannes Þór sá við honum. Það er saga sem Hannes getur sagt barnabörnunum í framtíðinni.

Leikurinn endaði 1-1 og íslenska þjóðin fagnaði því vel og innilega. Hins vegar, þá komumst við ekki upp úr riðlinum. Leikur númer tvö í riðlinum gegn Nígeríu fór illa með okkur þar sem við töpuðum 2-0 og töpuðum við einnig fyrir Króatíu í lokaleik riðilsins. Króatar fóru alla leið í úrslit mótsins, en töpuðu þar fyrir Frakklandi.

Sjá einnig:
Messi lenti á íslenskum vegg (Staðfest) - Fyrsta stigið á HM


Fleiri stórkostlegir fótboltaleikir:
Liverpool 3 - 3 West Ham (2006)
Frakkland 1 - 1 Ítalía (2006)
ÍA 2 - 1 Keflavík (2007)
Manchester United 1 - 1 Chelsea (2008)
Ísland U21 4 - 1 Þýskaland (2010)
Reading 5 - 7 Arsenal (2012)
Barcelona 2 - 2 Chelsea (2012)
Manchester City 3 - 2 QPR (2012)
Brasilía 1 - 7 Þýskaland (2014)
Juventus 1 - 3 Barcelona (2015)
Ísland 2 - 1 Austurríki (2016)
Barcelona 6 - 1 PSG (2017)
PSG 1 - 3 Man Utd (2019)
Liverpool 4 - 0 Barcelona (2019)
Ajax 2 - 3 Tottenham (2019)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner