Aston Villa lagði Chelsea að velli á Stamford Bridge í dag og var Unai Emery knattspyrnustjóri kátur að leikslokum.
Ollie Watkins skoraði eina mark leiksins gegn tíu leikmönnum Chelsea og er Aston Villa í sjötta sæti eftir sigurinn með tólf stig, á meðan Chelsea situr eftir með fimm stig.
„Við vorum sterkari á köflum gegn Newcastle og Liverpool en fundum ekki leið til að skora. Í dag var þetta mjög erfiður leikur en við börðumst vel og náðum í góðan sigur. Það er alltaf erfitt að vinna á þessum velli," sagði Emery.
„Það var mikilvægt að halda hreinu, það veitir okkur sjálfstraust til að stjórna spilinu og spila betri sóknarleik. Þetta eru mjög mikilvæg stig fyrir okkur.
„Það er enn vinna framundan því það er margt sem við getum bætt, en við sýndum mjög góða frammistöðu í dag. Við verðum að halda áfram á sömu braut og reyna að bæta ákveðna hluti."
Aston Villa heimsótti Legia til Varsjár og tapaði óvænt í fyrstu umferð í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar á fimmtudaginn. Villa á þrjá heimaleiki í röð framundan í þremur mismunandi keppnum, þar sem Everton kíkir í heimsókn í deildabikarnum, Brighton í úrvalsdeildinni og HSK Zrinjski Mostar í Sambandsdeildinni.
Zrinjski Mostar er frá Bosníu og rúllaði yfir Breiðablik í forkeppni Evrópudeildarinnar.