Gylfi Þór Sigurðsson, einn besti fótboltamaður í sögu Íslands, sneri aftur á fótboltavöllinn síðastliðið föstudagskvöld eftir langa fjarveru.
Hann kom inn af varamannabekknum á 71. mínútu í 1-1 jafntefli Lyngby gegn Vejle í dönsku úrvalsdeildinni.
Hann kom inn af varamannabekknum á 71. mínútu í 1-1 jafntefli Lyngby gegn Vejle í dönsku úrvalsdeildinni.
Landsliðskonan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, frænka Gylfa, var spurð út í endurkomu hans eftir síðasta landsleik.
„Ég verð að horfa á þennan leik til baka, ég verð að gefa honum skýrslu. Ég fæ gæsahúð að hugsa um að hann sé kominn aftur og ég er ekkert smá stolt af honum," sagði Karólína þá.
Hún var svo spurð að því í gær hvort hún væri búin að gefa honum skýrslu.
„Heyrðu já, ég talaði við hann. En okkur er eiginlega alveg sama hvernig hann stóð sig í fyrsta leiknum. Það er bara rosalega stórt fyrir hann og alla fjölskylduna að hann sé kominn til baka. Þetta er mikill sigur," sagði Karólína þá en hún horfir á Gylfa sem mikla fyrirmynd í fótboltanum og er núna með númerið tíu á bakinu í landsliðinu.
Gylfi gæti spilað sinn annan leik fyrir Lyngby þegar liðið mætir HB Köge í danska bikarnum annað kvöld.
Athugasemdir