Arsenal gerir tilboð í Gyökeres - Man Utd skipuleggur tilboð í Delap - Spurs býðst Sane
   mán 26. maí 2025 12:47
Elvar Geir Magnússon
Þjálfarinn sem Óskari fannst vinna gegn sér rekinn - Freyr sagði honum að „halda kjafti“
Sancheev Manoharan.
Sancheev Manoharan.
Mynd: Haugesund
Sancheev Manoharan hefur verið rekinn sem þjálfari Haugesund í Noregi vegna lélegs árangurs. Haugesund er í neðsta sæti norsku deildarinnar með aðeins eitt stig eftir níu umferðir.

Manoharan var rekinn eftir 2-0 tap gegn Frey Alexanderssyni og lærisveinum í Brann. Það var hiti á hliðarlínunni í leiknum og TV2 birti klippu þar sem Manoharan öskrar eftir gulu spjaldi.

„Af hverju fær hann ekki gult spjald?" öskraði Manoharan og Freyr svaraði þá: „Af hverju getur þú ekki haldið kjafti?"

Þegar Óskar Hrafn Þorvaldsson sagði óvænt upp sem þjálfari Haugesund í fyrra var talað um að hann hafi ekki viljað vinna með Manoharan sem var aðstoðarjálfari og tók svo við liðinu. Óskar sagði í viðtali eftir að hann hætti að ekki væru allir að dansa í takt hjá félaginu. Hann var spurður að því hvort honum hefði þótt Manoharan vinna gegn sér.

„Já það var mín tilfinning. Ef þú myndir spyrja hann þá myndi hann segja eitthvað annað. Þetta er tilfinning á móti tilfinningu. Menn verða bara að bera virðingu fyrir því hvernig mér leið og hvaða tilfinningu ég hafði gagnvart þessu verkefni á þeim tímapunkti sem ég tók þessa ákvörðun. Það er ekkert meira um það að segja," sagði Óskar
Athugasemdir
banner