Arsenal gerir tilboð í Gyökeres - Man Utd skipuleggur tilboð í Delap - Spurs býðst Sane
   mán 26. maí 2025 10:48
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Dóri útskýrði liðsvalið - „Var mjög tæpur"
Úr leiknum í gær.
Úr leiknum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Thomsen kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik.
Thomsen kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, gerði fjórar breytingar á sínu liði í gær frá leiknum gegn Val sem fór fram fyrir viku síðan.

Viktor Karl Einarsson tók sér sæti á bekknum ásamt Tobias Thomsen og Kristni Steindórssyni. Þá var Aron Bjarnason utan hóps. Það varð svo að gera fimmtu breytinguna fyrir leik þar sem Andri Rafn Yeoman meiddist í baki í upphitun. FH vann leikinn, 2-0.

Lestu um leikinn: FH 2 -  0 Breiðablik

„Aron er aðeins stífur eftir Valsleikinn og ekki í hóp, annars erum við með stóran og breiðan hóp og þurfum að deila álagi og ábyrgð. Við erum núna að spila sunnudag - fimmtudag - sunnudag, þrjá leiki á viku. Við gerum það ekki á ellefu mönnum, ekki flóknara en það," sagði Dóri í viðtali við Stöð 2 Sport fyrir leikinn.

Inn í liðið komu þeir Höskuldur Gunnlaugsson, Ágúst Orri Þorsteinsson, Arnór Gauti Jónsson og Kristófer Ingi Kristinsson - og svo kom Viktor Elmar Gautason inn fyrir Andra Rafn.

Eftir leik var hann sérstaklega spurður út í akvörðunina að hafa danska framherjann Tobias Thomsen á bekknum. Var taktísk ákvörðun að byrja með hann á bekknum?

„Nei, hann fékk aðeins í lærið á móti Val og var mjög tæpur. Hann æfði í gær og leit ágætlega út, við freistuðumst til að spila honum í dag og hann kom heill undan því sem er jákvætt."

Þurfa að taka stöðuna á Aroni og Andra fyrir fimmtudaginn

„Andri Rafn læsist í baki í upphitun, við þurfum að nudda það úr honum. Ég geri ráð fyrir að hann verði klár (í næsta leik). Meiðsli Arons eru ekki alvarleg, þurfum að taka stöðuna fyrir fimmtudaginn," sagði þjálfarinn en Breiðablik mætir ÍA á heimavelli á fimmtudag.
Innkastið - Blikar lúta í gras og Davíð Smári finnur lausnir
Athugasemdir
banner
banner