Fótboltasérfræðingurinn Jermaine Jenas vakti mikla athygli fyrir framgöngu sína um helgina þegar hann lét umdeild ummæli falla á Twitter, sem hann hefur dregið til baka og beðist afsökunar á.
Jenas, sem var eitt sinn leikmaður Tottenham og enska landsliðsins, var ekki sáttur með dómgæslu Rob Jones í fjandslag Tottenham gegn Arsenal um helgina.
Hann hraunaði yfir dómarateymið á Twitter og var sérstaklega ósáttur eftir að Rob Jones dómari dæmdi vítaspyrnu fyrir hendi á Cristian Romero í upphafi síðari hálfleiks. Hann sagði að svona dómgæsla væri að eyðileggja fótboltann, sem vekur athygli í ljósi þess að Jenas var sjálfur andlit nýrrar auglýsingaherferðar þar sem kallað er eftir því að dómurum sé sýnd meiri virðing.
„Tilfinningarnar báru mig ofurliði og ég vil biðja enska knattspyrnusambandið og alla dómara afsökunar á þessum ummælum," skrifaði Jenas á Twitter. „Ég hafði rangt fyrir mér. Ég á að vita betur heldur en þetta, sérstaklega í ljósi starfs míns gegn neikvæðri hegðun stuðningsmanna, lekmanna og sérfræðinga."
Jones dæmdi upprunalega ekki vítaspyrnu þegar boltinn fór í hendi Romero af stuttu færi, en hann breytti ákvörðun sinni og dæmdi vítaspyrnu eftir að hafa skoðað atvikið í VAR-skjánum.
Sjá einnig:
Drullaði yfir dómara eftir að hafa tekið þátt í herferð um að sýna þeim virðingu