Toney og David á blaði Man Utd - Bayern vill varnarmann Liverpool - Chelsea endurvekur áhuga á Duran - Luiz nálgast Juventus
   þri 28. maí 2024 15:47
Innkastið
Óskar var mættur í Vesturbæinn - „Trúi ekki öðru en að KR sé búið að hlera hann"
Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR er í sjöunda sæti Bestu deildarinnar.
KR er í sjöunda sæti Bestu deildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar var efsti maður á lista KR-inga eftir síðasta tímabili.
Óskar var efsti maður á lista KR-inga eftir síðasta tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þeir hristu ekki bara hausinn, þeir bauluðu á liðið eftir að dómarinn flautaði af. Það var ekkert minna en það," sagði Örn Þór Karlsson í Innkastinu í gær þegar rætt var um leik KR og Vestra í Bestu deildinni. Stuðningsmenn KR bauluðu á lið sitt eftir leikinn.

KR vann fyrstu tvo leiki sína í Bestu deildinni en síðan þá hefur liðið aðeins sótt fimm stig í sex leikjum. Liðið gerði jafntefli gegn Vestra eftir að hafa komist 2-0 yfir í leiknum.

„Það er ekki eðlilegt að KR sé búið að spila fjóra heimaleiki og sé bara með eitt stig... það er gjörsamlega fyrir neðan allar hellur," sagði Baldvin Már Borgarsson í þættinum.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, fyrrum þjálfari Breiðabliks og Haugesund, var mættur í stúkuna í Vesturbænum og fylgdist með leiknum. Óskar hætti nýverið með Haugesund eftir að hafa stoppað stutt þar.

„Óskar Hrafn var í stúkunni. Lesum við eitthvað annað í það en að hann sé KR-ingur?" spurði Elvar Geir Magnússon.

„Hann er alveg rosalega mikill áhugamaður um íslenskan fótbolta. Ég held að hann sé ekki að fara að missa af mörgum leikjum á meðan hann er á landinu. Ég veit það ekki. Maður hefur ekki heyrt um að það sé óánægja með Gregg Ryder," sagði Örn Þór.

„Ég hef heyrt það frá miklum KR-ingi, að það væri komin ólga og titringur," sagði Elvar Geir.

„Ég held að það séu stuðningsmenn ósáttir við gengi liðsins. Ég held að Gregg sé ekki slæmur þjálfari og ef hann fær að halda áfram að móta liðið út næsta tímabil, þá gæti hann verið kominn með samkeppnishæft lið að ég held," sagði Baldvin Már.

Óskar var efsti maður á blaði hjá KR eftir síðasta tímabil en fór þá til Noregs.

„Ég trúi ekki öðru en að KR sé búið að hlera hann. KR veit stöðu hans. Ef Óskar Hrafn vill ekki stökkva í eitthvað strax, þá eru þeir ekki að fara að skipta um þjálfara núna og svo er allt í einu Óskar tilbúinn í slaginn nokkru seinna," sagði Elvar. „Það var svolítið sérstök stemning að heyra baulið í stúkunni og svo sér maður Óskar þarna standa upp."

„Auðvitað er það blautur draumur KR-inga að fá hann til að þjálfa liðið," sagði Baldvin.

„Hann er náttúrulega KR-ingur. Líklega langar hann að þjálfa KR einn daginn," sagði Örn. „Ég held að það þurfi að byrja á að setja smá uppbyggingu í gang á KR-svæðinu áður en hann hefur mikinn áhuga á að taka við starfinu," sagði Baldvin.

„Bíðum og sjáum. Gregg Ryder, ég held að þeir skipti honum ekki út strax," sagði Elvar Geir en hægt er að hlusta á allan þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.

Óskar Hrafn hefur ekki viljað tjá sig eftir viðskilnaðinn við Haugesund um sín næstu skref.
Innkastið - Baulað í Vesturbæ og Hrafninn í stúkunni
Athugasemdir
banner
banner
banner