Jose Enrique, þjálfari spænska landsliðsins, segir herferð í gangi gegn reynsluboltunum Sergio Busquets og Jordi Alba. Alba er 33 ára gamall og Busquets er 34 ára, þeir voru elstu leikmennirnir í byrjunarliði Spánar gegn Þýskalandi í gær og sá næsti á eftir þeim í aldrei var hinn þrítugi Dani Carvajal.
Vinstri bakvörðurinn Alba lagði upp eina mark Spánar þegar fyrirgjöf hans rataði í hlaupaleiðina hjá Alvaro Morata eftir ríflega stundafjórðungsleik í seinni hálfleik í gær. Busquets átti þá fínasta leik inn á miðsvæðinu. Eftir leik hrósaði Enrique þeim báðum.
„Alba er leikmaður í hæsta gæðaflokki, eins og Busquets. Það er herferð í gangi gegn þeim og það er ekki óvænt því fólk er orðið þreytt á reynsluboltum. Ég er með þá í landsliðinu því þeir eru stórkostlegir leikmenn. Alba er besti bakvörður í heimi á síðasta þriðjungi vallarins," sagði Enrique eftir leikinn í gær.
„Alba er eins og Busquets, það er búið að reyna þvinga hann úr liðinu í mörg ár. Ég vona að við getum sannfært hann (Busquets) um að halda áfram og spila á einu HM í viðbót."
Alba og Busquets eru báðir leikmenn Barcelona. Samningur Busquets við félagið rennur út næsta sumar og er talið líklegt að hann fari til Inter Miami í kjölfarið. Samningur Alba rennur út 2024 en Barcelona er sagt vilja losna við hann fyrr.
Athugasemdir