Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 28. nóvember 2022 11:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Segja Vöndu fara með rangt mál - Fyrirspurnin ekki um leik og greiðslu
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, og Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri.
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, og Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá æfingu fyrir leikinn gegn Sádí-Arabíu.
Frá æfingu fyrir leikinn gegn Sádí-Arabíu.
Mynd: KSÍ
Sádí-Arabía fagnar sigri á HM.
Sádí-Arabía fagnar sigri á HM.
Mynd: Getty Images
Fyrir landsleik fyrr á þessu ári.
Fyrir landsleik fyrr á þessu ári.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mikið hefur verið rætt og skrifað um vináttulandsleik sem Ísland spilaði við Sádí-Arabíu áður en HM hófst. Hefur það verið harðlega gagnrýnt að íslenskt landslið spili vináttulandsleik við þjóð sem hugsar eins illa um mannréttindi og Sádí-Arabía gerir.

Sögusagnir eru um að KSÍ hafi fengið umtalsvert fjármagn til að taka þennan leik en upphæðin er trúnaðarmál að sögn KSÍ.

Sjá einnig:
Fótboltinn féll langt í skuggann - „Þetta er hræðilegt land"

Þegar leikurinn var samþykktur sagði Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, við Vísi að sambandið hefði leitað ráðlegginga hjá utanríkisráðuneytinu í fyrra varðandi möguleikann á að semja við Sáda og fengið það svar að ráðuneytið sæi ekkert athugavert við það.

„Þetta er líka svolítið flókið; hvort íþróttir og pólitík eigi leið saman. Hvaða lönd megum við þá spila við og hver ekki? Við höfum sagt að í stað þess að sniðganga sé betra að ná samtali, leiða fólk saman og fá breytingar þannig. Nota íþróttirnar sem tæki til félagslegra breytinga."

„Við heyrðum í utanríkisráðuneytinu á sínum tíma (í fyrra) til að vita hvort að þar væri talið að eitthvað mælti gegn því að við spiluðum þennan leik. Svo var ekki. Við höfum því frekar viljað fara þessa leið. Taka samtalið og reyna að nota fótboltann til breytinga til góðs,"
sagði Vanda.

Stundin fjallar um málið í dag og kemur það fram á miðlinum að fyrirspurn KSÍ fyrir utanríkisráðuneytið hafi ekki snúist um hvort það væri eitthvað sem mælti með því að Ísland spilaði þennan umtalaða leik.

„Í svari utanríkisráðuneytisins til Stundarinnar kemur ekki fram að sú fyrirspurn hafi snúist um þennan vináttuleik og greiðslu Sáda til KSÍ fyrir hann. Samkvæmt svari ráðuneytisins snerist fyrirspurnin um samstarf sem KSÍ hafði ráðgert að eiga við Sádi-Arabíu í fyrra... Samstarfið snerist um uppbyggingu kvennaknattspyrnu í Sádi-Arabíu," segir í grein Stundarinnar og er svar utanríkisráðuneytisins birt. Það hljóðar þannig:

„Í október 2021 ráðfærði KSÍ sig við utanríkisráðuneytið varðandi samstarf sem þá var fyrirhugað við Knattspyrnusamband Sádi-Arabíu. Það var mat utanríkisráðuneytisins að slíkt samstarf fæli ekki í sér lagalegar eða pólitískar skuldbindingar er vörðuðu íslensk stjórnvöld. Hins vegar minnti ráðuneytið á að íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á það í alþjóðlegu samstarfi að hvetja til þess að öll ríki virði mannréttindi, þ.m.t. í tengslum við íþróttastarf."

Fram kemur að KSÍ hafi ekki fengið grænt ljós frá stjórnvöldum fyrir leiknum, sem sagt ekki sérstaklega leitað til utanríkisráðuneytisins um það hvort það væri rétt að spila vináttulandsleikinn við Sádí-Arabíu og þiggja greiðslu fyrir það en hægt er að lesa grein Stundarinnar í heild sinni hérna.

Vill hjálpa fótboltastelpum í Sádí-Arabíu
Vanda sagði nýverið að hún sæi ekki eftir því að hafa samþykkt þennan leik við Sádí-Arabíu.

„Þetta er erfitt og flókið. Ég skil að margir séu fúlir, en ég ákvað þegar ég fór í þetta starf að vera sjálfri mér trú. Ég trúi á samtalið. Þetta er ekki afsökun. Ég hef unnið við þetta í mörg ár og kennt þetta: Mikilvægi samtalsins," sagði Vanda við RÚV.

Vanda talaði um það í viðtalinu að hún hefði komist að því að Sádí-Arabía væri að byrja með kvennalandslið, en réttindi kvenna í landinu hafa ekki verið í hávegum höfð. Það er vægt til orða tekið. Vanda segist hins vegar trúa á samtalið.

„Ég vildi styðja og styrkja þetta. Ég trúi á það að mannréttindi og staða kvenna haldist hönd í hönd. Ef við getum bætt stöðu kvenna þá held ég að það hafi jákvæð áhrif á mannréttindi. Við sem fótboltasamband vildum gera þetta með sambandinu í Sádí-Arabíu."

Vanda ætlaði að taka fund með yfirmönnum sambandsins í Sádí-Arabíu í tengslum við leikinn en komst ekki vegna meiðsla. Í staðinn tóku hún og KSÍ fund með Sádunum í Katar, þar sem mannréttindi hafa heldur ekki verið í hávegum höfð. Vanda hefur eftir leikinn talað um að hún vilji hjálpa fótboltastelpum í Sádí-Arabíu.

„Kannski er þetta barnalegt hjá mér, en þetta er bara ég."

KSÍ hefur ekki viljað opinbera það hvað sambandið fékk greitt fyrir þennan vináttulandsleik.

Uppfært 17:04: KSÍ sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins sem má lesa með því að smella hérna.
Athugasemdir
banner
banner
banner