Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 29. janúar 2023 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Bamba Dieng og Romain Faivre til Lorient (Staðfest)
Mynd: EPA
Mynd: Lyon

Franska félagið Lorient er búið að styrkja sig á lokadögum janúargluggans. Lorient komst upp í efstu deild fyrir tveimur og hálfu ári síðan og hefur síðan þá verið fallbaráttulið í Ligue 1.


Félaginu tókst þó að lifa af og er að eiga frábært tímabil sem stendur. Lorient er eitt af spútnik liðum deildarinnar og situr í sjötta sæti með 35 stig eftir 20 umferðir, aðeins tveimur stigum frá Evrópusæti.

Dango Ouattara hefur verið einn af lykilmönnum liðsins á tímabilinu en Bournemouth keypti hann á dögunum fyrir 20 milljónir punda. Lorient hefur því ákveðið að nota þann pening til að kaupa tvo nýja leikmenn.

Framherjinn Bamba Dieng er þekktur í fótboltaheiminum eftir svakalegt gluggadagsævintýri síðasta sumar. Dieng var þá á leið til Leeds United á lokadegi félagsskiptagluggans en hætti við skiptin á síðustu stundu til að fara frekar til OGC Nice. Hann féll óvænt á læknisskoðun hjá Nice og missti því að tækifærinu til að skipta um félag.

Dieng er 22 ára gamall landsliðsmaður Senegal og gerir tveggja og hálfs árs samning við Lorient. Dieng á 10 mörk í 48 leikjum með Marseille og 2 í 17 leikjum með senegalska landsliðinu.

Lorient er talið borga um 8 milljónir evra fyrir Dieng og þá er Romain Faivre kominn á lánssamningi frá Lyon.

Faivre er 24 ára hægri kantmaður sem getur einnig spilað sem miðjumaður eða bakvörður. Hann á 28 leiki að baki fyrir Lyon og var á sínum tíma partur af sterku U21 landsliði Frakklands.

Faivre vill fá meiri spiltíma og heldur því burt frá Lyon á lánssamningi, en hann er samningsbundinn Lyon til 2026. 

Kantmaðurinn er með tvöfalt ríkisfang og gæti spilað fyrir landslið Alsír í framtíðinni. Þar gæti þó reynst ansi snúið að taka byrjunarliðsstöðuna af Riyad nokkrum Mahrez. 


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner