Tveir Íslendingaslagir voru á dagskrá í í Evrópuboltanum í dag og enduðu þeir báðir með jafntefli.
Halmstad og Norrköping gerðu markalaust jafntefli í sænsku úrvalsdeildinni. Birnir Snær Ingason og Gísli Eyjólfsson komu báðir inn af bekknum hjá Halmstad á meðan þeir Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson voru í byrjunarliði Norrköping.
Norrköping er í 11. sæti með 27 stig en Halmstad í 14. sæti með 24 stig þegar fimm umferðir eru eftir.
Andri Fannar Baldursson kom inn af bekknum á lokamínútunum er Elfsborg vann Kalmar, 3-1. Eggert Aron Guðmundsson var ekki í hóp hjá liðinu, en Elfsborg situr í 5. sæti með 41 stig.
Í Noregi fór fram annar Íslendingaslagur er Strömsgodset og Ham/Kam mættust. Logi Tómasson var í liði Strömsgodset á meðan Brynjar Ingi Bjarnason kom inn af bekknum hjá Ham/Kam.
Leikurinn endaði jafn, 1-1, en Ham/Kam er í 8. sæti með 29 stig á meðan Strömsgodset er í 10. sæti með 28 stig.
Hilmir Rafn Mikaelsson byrjaði í 4-0 tapi Kristiansund gegn toppliði Bodö/Glimt. Kristiansund er í 11. sæti með 26 stig.
Stefán Ingi Sigurðarson var í byrjunarliði Sandefjord sem tapaði fyrir Rosenborg, 1-0. Blikinn kom sér í nokkur góð færi, en því miður fyrir hann þá hitti hann á stórleik hjá markverði Rosenborg.
Sandefjord er í 14. sæti með 22 stig.
Elías Már Ómarsson kom við sögu í 1-0 tapi NAC Breda gegn Twente í hollensku úrvalsdeildinni. Elías kom inn af bekknum á 79. mínútu. Breda, sem er nýliði í deildinni, er með sex stig í 16. sæti.
Kristian Nökkvi Hlynsson var ónotaður varamaður hjá Ajax sem vann Waalwijk, 2-0. Ajax er með aðeins 10 stig eftir fimm leiki í deildinni.
Kolbeinn Birgir Finnsson var sömuleiðis ónotaður varamaður hjá Utrecht sem vann AZ Alkmaar, 2-1. Utrecht er í öðru sæti með 16 stig.
Í Grikklandi spilaði Sverrir Ingi Ingason í vörn Panathinaikos sem tapaði fyrir AEK í grannaslag, 2-0. Panathinaikos er aðeins með átta stig úr sex leikjum. Hörður Björgvin Magnússon var ekki með Panathinaikos í dag.
Athugasemdir