Rio Ferdinand, fyrrum leikmaður Manchester United, telur að félagið þurfi að losa sig við að minnsta kosti fjóra leikmenn í sumarglugganum.
Ferdinand ræddi um leikmannahóp United á Youtube-rásinni Vibe 4 Five.
Hann er þeirrar skoðunar að félagið þurfi að losa sig við Scott McTominay, Harry Maguire, Anthony Elanga og Anthony Martial og útskýrði hann mál sitt frekar.
„Scott McTominay hefur ekki spilað mikinn fótbolta, ekki eins mikið og hann hefði viljað. Ef ég væri hann og ungur þá myndi ég fara í það að skoða stöðuna og eiga erfitt samtal við félagið og sjá hvort það sér fyrir sér að nýta mig. Ef ég væri kominn svona aftarlega í goggunarröðinni þá myndi ég fara að horfa annað og ég held að hann verði í engum vandræðum með að finna lið. Hann er góður fótboltamaður og hefur mikið fram að færa.“
„Harry Maguire verður að skoða möguleikana nema hann sé ánægður að vera þriðji eða fjórði kostur. Kannski Elanga líka þar sem hann er ekki að fá tækifæri.“
„Martial hefur sannað það að hann getur ekki haldið sér heilum. Ef þú losar þig við þessa fjóra þá ertu kominn með 100 milljónir punda. Elanga er ekki að fá fótboltann sem hann á skilið. Hann gerði vel þegar hann kom við sögu en er samt ekki að fá tækifæri. Það eru gæðaleikmenn á undan honum en hann vill spila meira,“ sagði Ferdinand.
Athugasemdir