Rúnar Kristinsson verður ekki þjálfari KR á næsta tímabili en þetta var tilkynnt í gær. Samningur Rúnars við KR rennur út um mánaðamót og var ákvörðun knattspyrnudeildar félagsins að framlengja ekki samninginn við Rúnar.
Fótbolti.net hefur sett saman lista yfir tíu þjálfara sem gætu verið á blaði hjá KR-ingum í leitinni að næsta þjálfara.
Óskar Hrafn Þorvaldsson - Næsta skref Óskars virðist að fara í þjálfun erlendis en í Vesturbænum eru margir sem dreyma um að hann snúi aftur í sitt félag og hjálpi því að berjast um titla að nýju.
Sigurður Heiðar Höskuldsson - Gerði magnaða hluti með Leikni í Breiðholti og er í dag aðstoðarþjálfari Vals. Á bjarta framtíð í þjálfarabransanum.
Halldór Árnason - Aðstoðarmaður Óskars Hrafns hjá Breiðabliki. Halldór er KR-ingur og ljóst að margir stuðningsmenn vilja að hann taki við stjórnartaumunum.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson - Er án starfs eftir að hann hætti hjá Keflavík. Siggi Raggi er fyrrum leikmaður KR. Er einnig orðaður við hlutverk bak við tjöldin hjá KR og sagður hafa fundað með félaginu.
Ólafur Jóhannesson - Einn sá sigursælasti í íslenskum fótbolta. Elskar áskoranir og ætti líklega erfitt með að segja nei ef KR myndi hringja.
Brynjar Björn Gunnarsson - Bundinn Grindavík en ætti væntanlega erfitt með að segja nei ef uppeldisfélagið kallar.
Athugasemdir