mið 31. júlí 2019 18:15
Arnar Daði Arnarsson
Alfons: Hlakka til að leggja mitt af mörkum
Alfons er kominn aftur í grænt.
Alfons er kominn aftur í grænt.
Mynd: Blikar.is
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfons Sampsted er kominn aftur til Breiðabliks á láni frá Norrköping í Svíþjóð. Hann spilar með Blikum út þessa leiktíð í Pepsi Max-deildinni.

Alfons, sem er 21 árs gamall bakvörður, er uppalinn hjá Blikum, en fór út til Norrköping 2017.

„Ég er virkilega spenntur fyrir komandi leikjum með Blikum," segir Alfons í samtali við Fótbolta.net. „Ég hlakka til að taka þátt í þeirri baráttu sem þeir eru í núna."

„Ég get ekki sagt að það hafi verið langur aðdragandi að þessu, seinustu vikur hafa farið í að skoða mína valkosti og núna síðastliðinn mánudag lokaði ég á aðra valkosti og setti stefnuna alfarið á Blika."

„Mitt mat er að ég þurfi mínútur á háu 'leveli', og taldi ég að Breiðablik væri frábær kostur."

Hann mun fara aftur til Norrköping að tímabilinu loknu.

„Ég fer aftur út eftir tímabilið, ég á samning við IFK Norrköping út tímabilið 2020 og leggja þeir áherslu á að ég komi út aftur strax að tímabili loknu."

Breiðablik er í öðru sæti Pepsi Max-deildinni, en gengið upp á síðkastið hefur ekki verið upp á marga fiska. Alfons hefur horft mikið á Kópavogsliðið í sumar og er spenntur fyrir því sem framundan er.

„Ég hef horft á flesta leiki Blika í sumar og reyni að fylgjast með öðrum liðum eins og ég get. Baráttan er spennandi, þeir eru í undanúrslitum í bikar og standa sterkt í deildinni. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum," sagði Alfons Sampsted, sem er aftur kominn til Breiðabliks.
Athugasemdir
banner
banner
banner