Höjlund, Sesko, Palhinha, Sancho, Garnacho, Guehi, Eze, Echeverri og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 31. júlí 2025 13:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Besta tímabilið mitt hjá Val"
Hólmar Örn
Hólmar Örn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markus Nakkim
Markus Nakkim
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Auðvitað helst það í hendur með liðinu, varnarleikur er ekki tveir hafsentar og markmaður, það er hellings vinna sem fer fram sem auðveldar verkin fyrir öftustu línu'
'Auðvitað helst það í hendur með liðinu, varnarleikur er ekki tveir hafsentar og markmaður, það er hellings vinna sem fer fram sem auðveldar verkin fyrir öftustu línu'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hólmar Örn Eyjólfsson hefur átt virkilega gott tímabil með Val, fyrirliðinn hefur spilað allar mínútur frá því í mars ef frá er talinn leikurinn gegn KA þar sem hann tók út leikbann. Hólmar var að glíma við meiðsli seinni hluta síðasta árs og jafnaði sig á þeim meiðslum í vetur. Hann ræddi við Fótbolta.net um eigið tímabil og samvinnu hans og norska miðvarðarins Markus Nakkim í aðdraganda leiksins gegn Kauno Zalgiris sem fram fer í kvöld.

Ef Valur vinnur leikinn, sem hefst klukkan 18:30 á N1 vellinum að Hlíðarenda, kemst liðið í 3. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni.

Þjösnaðist áfram á tæpum nára
„Þetta er löng og leiðinleg saga. Þetta byrjar fyrir akkúrat ári í þessum Evrópuleikjum, þá finn ég til í náranum, spila leik sem ég hefði líklega ekki átt að spila og eyðilegg hann eiginlega enn frekar. Það var lítið æft og reynt að spila einhverja leiki í viðbót á því tímabili, eitthvað sem var líklega ekki sniðug ákvörðun hjá okkur, maður var alltaf að rífa þetta upp aftur og aftur. Svo tók ég mér bara góða pásu í vetur, var í ræktinni, og byrjaði ekki að æfa fyrr en í lok febrúar. Ég náði að ná mér alveg af þessu."

„Í gegnum ferilinn hef ég lent í einhverjum stórum meiðslum, krossbandsslit og svona, en ég er annars vanur að vera nokkuð heill. Kannski er aldurinn að segja eitthvað til sín, en núna líður mér bara vel."


Þetta tímabil það besta til þessa
Þú hefur átt mjög gott tímabil, jafnvel þitt besta frá því að þú komst til Íslands, ertu sammála því?

„Já, gott ef ekki. Auðvitað helst það í hendur með liðinu, varnarleikur er ekki tveir hafsentar og markmaður, það er hellings vinna sem fer fram sem auðveldar verkin fyrir öftustu línu. Það sem við höfum haft á þessu tímabili er að við höfum verið með virkilega duglega menn fremst á vellinum sem setja pressu og gera leikmönnum erfitt fyrir. Það gerir á móti hlutina auðveldari fyrir okkur aftast."

„Að vera heill, vera í takti og vera spila alltaf, það hjálpar náttúrulega líka. Jú, ég get alveg verið sammála því að þetta er til þessa besta tímabilið mitt hjá Val."


Þarf að vera skilningur án orða
Hvernig er að spila með Nakkim aftast?

„Það er virkilega gott, þetta er alvöru varnarmaður. Fyrir hafsenta sem spila saman, þá þarf að vera ákveðinn skilningur, án orða, þar sem ég veit nákvæmlega hvað hann gerir í öllum aðstæðum og get þá hagað mínum leik út frá því. Hann er sterkur, fljótur og góður í návígum, hann skilur leikinn vel og það er virkilega gott að spila með honum," segir Hólmar.
Athugasemdir
banner